Sprengigos í vatni og jökli

Mánudaginn 28. nóvember kl. 17:15 mun dr. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans fjalla um sprengigos í vatni og jökli, ísbráðnun og upptök jökulhlaupa.

Þá mun dr. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans fjalla um sprengigos í vatni og jökli, ísbráðnun og upptök jökulhlaupa. Öflug basísk sprengigos sem verða þar sem kvika og vatn blandast saman eru vel þekkt á Íslandi. Algengust eru þessi gos í jöklum, t.d. í Grímsvötnum og Kötlu, en einnig má nefna atburði eins og Vatnaöldu- og Veiðivatnagosin að ógleymdri myndun Surtseyjar. Einkenni þessara gosa er tvístrun kvikunnar í fíngerða gjósku samfara mikilli gufumyndun í öflugum sprengingum. Á síðustu árum hafa tilraunir vísindamanna í Bandaríkjunum
og Þýskalandi varpað ljósi á það ferli sem verður þegar kvika tvístrast með þessum hætti. Jafnframt hafa rannsóknir á nýlegum eldgosum í Vatnajökli, einkum Gjálpargosinu 1996, leitt í ljós hve hratt varmi berst frá gosefnum til íss og vatns umhverfis gosstaðinn. Þegar niðurstöður tilrauna með vatn og kviku og upplýsingar úr gosunum hér á landi eru tengdar saman skýrist ýmislegt sem valdið hefur heilabrotum. Þær varpa t.d. ljósi á hvernig stórt gos undir jökli eins og varð í Kötlu 1918 getur brætt um eða yfir 200 þúsund m3/s og orsakað hamafarahlaup sem brjótast fram aðeins einni klukkustund eftir að gos hefst. Í fyrirlestrinum verða einnig tekin dæmi frá fleiri gosum í jöklum, t.d. Gjálp 1996 og Grímsvötnum 1998 og 2004.

Fræðsluerindi HÍN er opið öllum og aðgangur er ókeypis.