Heimasíða Hins íslenska náttúrufræðifélags opnuð

Nú er búið að endurhanna heimasíðu Hins íslenska náttúrufræðifélags og hún verður formlega opnuð mánudaginn 28. nóvember 2005, í stofu 132 í Öskju, á undan fyrirlestri Magnúsar Tuma Guðmundssonar. Jóhann Ísberg sá um formfræðilega og tæknilega grunnútfærslu á heimasíðunni og lagði auk þess til ljósmyndaefni. Kann félagið honum bestu þakkir fyrir verkið.

Á heimasíðunni verður hægt að sækja ýmsar upplýsingar um starfsemi félagsins, s.s. um fræðslufundi, fræðsluferðir og málefni Náttúrufræðingsins. Einn helsti kostur heimasíðunnar felst vafalítið í þeirri nýjung að nú geta félagsmenn jafnt sem aðrir fengið yfirsýn yfir greinar Náttúrufræðingsins frá upphafi. Útgáfa á Náttúrufræðingnum hófst árið 1931 og fram til ársins 2004 hafa komið út 72 árgangar.

Til að byrja með verður leitarviðmótið í Náttúrufræðingnum með einföldu sniði, og einungis hægt að leita að höfundum og orði í heiti greinar. Þá verður í fyrstsu einungis hægt að fá upplýsingar um fyrsta höfund greinar, heiti greinar, blaðsíðutal, númer árgangs, heftis og útgáfuár. Þegar fram líða stundir er stefnt að því að bæta viðmótið, m.a. þannnig að kalla megi fram ágrip af greinum og jafnvel heilu greinarnar með notkun samsettra lykilorða.