Næsta fræðsluerindi HÍN 30. janúar 2006

Að venju liggur fyrirlestrahald niðri hjá HÍN í desember. Fyrsta fræðsluerindið á komandi ári verður haldið mánudag 30. janúar 2006 og ætlar dr. Magnús Jóhannsson líffræðingur hjá Landgræðslu ríkisins að fjalla um Uppblástur og landgræðslu á Grænlandi. Hann mun segja frá fólki, fénaði og jarðvegsrofi og greina frá útflutningi Landgræðslunnar á þekkingu á stöðvun rofs.

Fræðsluerindi HÍN eru haldin í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands við Sturlugötu 7, og hefjast kl. 17:15. Erindin eru jafnan haldin síðasta mánudag hvers mánaðar á tímabilinu september-maí að desember undanskildum.