Af fálkum – næsta fræðsluerindi HÍN

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. febrúar nk. Þá mun dr. Ólafur K. Nielsen vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands flytja erindið Af fálkum.

Ólafur hefur fengist við rannsóknir á fálkum síðan 1981 og unnið mest við þær á Norðausturlandi. Í erindinu mun hann fjalla um lífsferil fálkans og tengsl fálkans og rjúpunnar. Einnig verða sýndar ljósmyndir af fálkum og rjúpum eftir Jóhann Óla Hilmarsson og Daníel Bergmann. Bæði Daníel og Jóhann eru þekktir fyrir myndir af fuglum og bækur sínar um fugla og náttúru landsins. Í lok fyrirlestrar verða sýnd nokkur myndskeið úr mynd um fálka og rjúpu sem Magnús Magnússon kvikmyndagerðarmaður er að ljúka við að gera.

Fræðsluerindi HÍN eru ávallt haldin síðasta mánudag hvers mánaðar á tímabilinu september-maí að desember undanskildum. Erindin hefjast kl. 17:15 og eru haldin í Öskju, stofu 132, Náttúrufræðahúsi Háskólans við Sturlugötu í Vatnsmýri.