Vorboðar eða vágestir? – næsta fræðsluerindi HÍN

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. mars n.k. kl. 17:15 í Öskju, stofu 132. Þá mun dr. Guðmundur A. Guðmundsson fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands flytja erindið Vorboðar eða vágestir? Guðmundur mun fjalla um farfugla og meinta tengingu þeirra við dreifingu fuglaflensu.

Hræðsluáróður fjölmiðla og meint tenging farfugla við dreifingu fuglaflensu hefur leitt til þess að margir kvíða nú komu vorsins og búast við hóstakjöltri frá álftum í stað svanasöngs í heiði. Íslenskir farfuglar fara víða og til eru endurheimtur fugla merktra hér á landi í öllum heimsálfum að Ástralíu og Suðurskautslandinu undanskildum. Flestir íslenskir fuglar halda sig þó á Atlantshafi og löndum umhverfis það, einkum austanvert.

Helst er talið að andfuglar séu líklegir til að smitast af og bera veiruna H5N1, sem er hið skæða afbrigði fuglaflensu er asískir alifuglabændur hafa glímt við undanfarin þrjú ár og vart hefur orðið í Evrópu á síðustu vikum. Í erindinu verður fjallað um vetrarútbreiðslu íslenskra andfugla samkvæmt upplýsingum frá merkingum. Til andfugla teljast á annan tug andategunda, álft, grágæs og heiðagæs, auk blesgæsar, helsingja og margæsar sem eru fargestir. Flestar þessar tegundir eru farfuglar að mestu eða öllu leyti, en stokkönd, æðarfugl, straumönd, hávella, húsönd, toppönd og gulönd eru þó að mestu eða algerir staðfuglar.

Síðan umræða um hina svokölluðu fuglaflensu hófst hefur Náttúrufræðistofnun Íslands lagt áherslu á að horft sé til ástandsins á Bretlandseyjum og að miða hækkað viðbúnaðarstig hér við að H5N1 greinist þar. Yfir 90% íslenskra álfta, sem á annað borð yfirgefur landið, og allra íslenskra gæsa hefur vetursetu á Bretlandseyjum. Þar eru líka megin vetrarstöðvar flestra andategunda, þótt dreifing þeirra um vestanverða Evrópu sé nokkuð meiri.

Fræðsluerindi HÍN eru ávallt haldin síðasta mánudag hvers mánaðar á tímabilinu september-maí að desember undanskildum. Erindin hefjast kl. 17:15 og eru haldin í Öskju, stofu 132, Náttúrufræðahúsi Háskólans við Sturlugötu í Vatnsmýri.