Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 24. apríl kl. 17:15 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans, í stofu 132. Þá mun dr. Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands flytja erindi sem hún nefnir; Rannsóknir á félagsgerð hesta í íslenskum stóðum.
Félagsgerð hópa byggist á samböndum á milli einstaklinga hópsins. Því er nauðsynlegt að greina virðingarraðir, þ.e. hver ríkir yfir hverjum og einnig hverjir bindast vináttuböndum. Til að geta kortlagt tengsl á milli hesta þarf að fylgjast með þeim við aðstæður þar sem þeir eru tiltölulega frjálsir. Greint verður frá rannsóknum höfundar og samstarfsmanna hennar sem hafa staðið yfir frá 1996. Stóð í Skorradal, Reykholtsdal, Hjaltadal, Heggstaðanesi og Vatnsnesi hafa verið vöktuð. Í aðeins einu var stóðhestur til staðar.
Niðurstöður sýna að tímanotkun er lík allt árið, hvort sem hrossin eru í sumarhaga eða í útigangi þar sem þau hafa frjálsan aðgang að heyi. Um það bil 65% tímans fer í át, 15-20 % í að standa kyrr, 5%-10 í að liggja, 5% í að ganga og 5% í samskipti. Samskipti aukast þegar ný hross koma í hóp og þegar einhver hross eru tekin úr stóði. Tilvist stóðhests virðist aftur á móti draga úr samskiptum á milli tryppa og hryssna. Ekki er algilt hvað ræður stöðu í virðingarröð. Aldur ræður mestu í varanlegu stóði en þyngd og dvalartími í nýsamsettum hópi. Virðingarröð getur skipt máli hvað varðar aðgang að heyi og staðsetningu í vondum veðrum. Vinatengsl sýna sig í að hrossin halda sig að jafnaði nálægt hvort öðru í haganum og þau kljást (þ.e. snyrta hvort annað) tiltölulega mikið. Yngri hrossin og geldingar mynda líka tengsl í gegnum leik. .Hross sem eru á svipuðum aldri eru gjarnan félagar. Hross sem eru frá sama bæ halda mjög ákveðið saman þegar þau koma í nýsamsettan hóp. Í stöðugu stóði virðast skyld hross mynda vinatengsl. Niðurstöður tilrauna þar sem ókunnug trippi voru sett saman til að kanna hvort þau sæktust í félagsskap skyldra einstaklinga eru ekki einhlítar. Hrossin skipta sér stundum af öðrum sem eru að kljást eða leika sér. Þau reyndust einkum stöðva slík samskipti þegar einhver vinurinn átti þátt í máli. Athugun á útbreiðslu húslasta, en þeir sýna að hrossum líður ekki vel, bendir til að minna er um alvarlega lesti hér á landi en í nágrannalöndum. Það er mín skoðun að nokkrir þættir skipti höfuðmáli í þessu samhengi: tiltölulega opin rými í hesthúsum, stuttur tími á húsi á hverju ári, tækifæri til að hafa samneyti við aðra hesta bæði á meðan á húsvist stendur og í sumar- og hausthaga og hinn langi tími sem íslenski
hesturinn elst uppi í stóði áður en hann er taminn.
Fræðsluerindi HÍN eru ávallt haldin síðasta mánudag hvers mánaðar á tímabilinu september-maí að desember undanskildum. Erindin hefjast kl. 17:15 og eru haldin í Öskju, stofu 132, Náttúrufræðahúsi Háskólans við Sturlugötu í Vatnsmýri.