Að þessu sinni í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Fyrirlesari er: RATTAN LAL, Prófessor við Ohio State University. Erindi hans kallast: “Landheilsa jarðar og glíman við loftslagsbreytingar” eða “Mitigating climate change by advancing land health and food security”. Fyrirlesturinn verður haldinn í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu miðvikudaginn 10. maí kl 16:00. Fyrirlesturinn verður á ensku og er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.
Í fyrirlestri sínum mun Rattan Lal fjalla um breytingar á loftslagi jarðar af mannavöldum, síhrakandi landheilsu jarðar vegna hnignunar vistkerfa og eyðingar jarðvegs og vaxandi erfiðleika við að tryggja mannkyni nægan mat. Ein af lausnum þessa margslungna vanda er að binda kolefnið í gróðri og jarðvegi, m.a. með landgræðslu og skógrækt, og bæta um leið frjósemi landsins og fæðuöryggi jarðarbúa.
Rattan Lal mun jafnframt ræða ástand lands á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, enda eru möguleikar til kolefnisbindingar miklir hér á landi. Þess má geta að Ísland beitti sér fyrir því að landgræðsla yrði viðurkennd leið til bindingar á kolefni á vettvangi Kyoto samningsins.
Rattan Lal er prófessor við ríkisháskólann í Ohio í Bandaríkjunum og jafnframt forstöðumaður rannsóknastofnunar við háskólann sem sérhæfir sig í rannsóknum á bindingu kolefnis. Hann er meðal fremstu vísindamanna heims á sviði samspils landkosta og loftslagsbreytinga.