Dr. Skúli Skúlason: „Ný sýn á líffræðilegan fjölbreytileika“

Mánudag 25. september 2006: Dr. Skúli Skúlason: „Ný sýn á líffræðilegan fjölbreytileika“

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. september kl. 17:15 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans, í stofu 132. Þá mun Dr. Skúli Skúlason líffræðingur og rektor Háskólans á Hólum flytja erindi sem hann nefnir; Ný sýn á líffræðilegan fjölbreytileika.

Þekking á líffræðilegri fjölbreytni er lykilatriði í vist- og þróunarfræði og enn fremur fyrir skilning og ákvarðanir sem varða nýtingu og verndun náttúrunnar. Íslendingar eru ásamt mörgum öðrum þjóðum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt samningnum merkir líffræðileg fjölbreytni breytileika meðal lífvera í margbreytilegu umhverfi, þar með eru talin vistkerfi á landi, sjó og vötnum og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af. Þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og innan vistkerfa.

Þrátt fyrir þessa víðu skilgreingu á líffræðilegri fjölbreytni hafa menn fyrst og fremst beint sjónum að fjölda lífverutegunda á ákveðnu svæði, sem er mun þrengri nálgun. Fræðimenn benda aftur á móti á að líffræðileg fjölbreytni snýst ekki síður um uppruna, þróun og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni.

Nýjustu rannsóknir um mikilvægi vistfræðilegra þátta við þróun fjölbreytni og tilurð nýrra tegunda styður þessa sýn. Vegna landfræðilegrar einangrunar og ungs aldurs Íslands eru hér fáar tegundir lífvera. Aftur á móti eru búsvæði hér fjölbreytt. Þetta leiðir til þess að hérlendis eru aðstæður til hraðrar þróunar fjölbreytni innan tegunda mjög góðar. Hér er því sérstaklega brýnt að nálgast líffræðilega fjölbreytni í ljósi uppruna og þróunar fjölbreytninar, frekar en að beina sjónum eingöngu að fjölda tegunda. Íslendingar verða að leggja meiri áherslu á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og stórauka þarf þekkingu á þessu sviði hérlendis.