Veðurfarsbreytingar – hækkun hita eða eitthvað meira?

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. október kl. 17:15 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans, í stofu 132. Þá mun Trausti Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands flytja erindi sem hann nefnir „Veðurfarsbreytingar – hækkun hita eða eitthvað meira?“

„Hugsanlegar veðurfarsbreytingar af manna völdum ýfa upp vetrarkvíða Íslendinga, sagt er að straumakerfi heimshafanna sé að bresta, jöklar landsins í útrýmingarhættu, hækkun sjávarborðs ógni Reykjavík og pestir og plágur myrkrar Afríku séu rétt handan við hornið. Erindi um veðurfarsbreytingar mun auðvitað eitthvað minnast á þetta, kannski skýrist málið eitthvað betur þegar rýnt er í eldra veðurlag, sem er reyndar svo löng saga að erfitt er að byrja á henni. Veðurkerfi heimsins, eins og það gengur núna, er líka langur hali og loðinn, allt frá miðju sólar til rigningar í Reykjavík, hár hans verða seint talin. Ef til vill verður rýnt í hvað það er sem heldur hita hér á landi jafnháum og raun ber vitni. Fyrirlesari er stundum áhrifagjarn, eru einhverjar spurningar sem brenna í hjarta eða á vörum félagsmanna?“