Þjóðgarðar í sjó

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. nóvember kl. 17:15 í stofu 132, í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans. Þá flytur Sigríður Kristinsdóttir líffræðingur á Náttúrustofu Reykjaness erindi sem hún nefnir „Þjóðgarðar í sjó“.

Um erindi Sigríðar Kristinsdóttur um Þjóðgarða í sjó.
„Víða um heim eru verndarsvæði í sjó (MPAs; Marine Protective Areas) notuð til að stjórna fiskveiðum, auk þess sem þau eru mikilvæg til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og til að vernda náttúru- og menningarminjar. Telja má líklegt að í framtíðinni verði þessu stjórntæki beitt í ríkari mæli hér við land. Nú þegar stendur til að banna botnvörpuveiðar á kóralsvæðum fyrir sunnan landið, til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika. Forsendur fyrir skilgreiningu og verndun slíkra svæða er aukin þekking á lífríki sjávar og þekking á áhrifum verndunar á lífríki hafsins.

Í þessu verkefni hefur upplýsingum verið safnað um ýmsa þætti, svo sem um líffræðilegan fjölbreytileika á botni sjávar, fiskveiðiálag, hrygningarsvæði mikilvægra nytjategunda, sem og upplýsinga um jarðmyndanir og menningarminjar á ákveðnum svæðum.

Landupplýsingakerfi (GIS) hefur verið notað til að taka saman upplýsingarnar og kortleggja þær. Þannig er kannað hversu mikilvæg svæðin eru fyrir efnahag út frá veiðiálagi, og afla sem og útbreiðslu og lífshlaupi tegunda, svo sem hrygningu og nýliðun nytjafiska.“