Gróðurframvinda í Surtsey: Útbreiðsla tegunda og dreifingarmynstur

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 29. janúar 2007 kl. 17:15 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans, í stofu 132. Þá mun dr.Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands mun flytja erindi sem hann nefnir; „Gróðurframvinda í Surtsey: Útbreiðsla tegunda og dreifingarmynstur.“

„Allt frá því að Surtsey myndaðist fyrir rúmum 40 árum hefur verið fylgst með landnámi plantna í eyjunni og gróðurframvindu. Í upphafi voru einstakar plöntur merktar og kannað hvernig þeim reiddi af. Með tímanum reyndist þetta of mikið verk og aðferðum var breytt. Á árunum 1990–1995 voru lagðir út 25 fastir reitir í allar helstu landgerðir í eyjunni til að fylgjast með breytingum á gróðri, jarðvegi og smádýralífi. Samtímis hefur verið fylgst með landnámi nýrra tegunda í eyjunni eftir föngum eins og gert var í upphafi þótt einstökum plöntum sé ekki lengur fylgt eins nákvæmlega eftir og áður. Til þess að fá nánari mynd af heildargróðurbreytingum í eyjunni var henni skipt upp í 100 x 100 m reiti og gróður í hverjum reit kannaður, fyrst árin 1996–1997 og síðan 2005–2006. Í hverjum reit voru allar háplöntutegundir skráðar og þeim gefnar einkunnir eftir því hversu algengar þær voru.

Í erindinu verður gerð grein fyrir landnámi einstakara tegunda í eyjunni, hvenær þær
numu land og á hvers konar landgerð. Einnig verður greint frá hverning einstakar tegundir hafa breiðst út um eyjuna og gerð grein fyrir helstu gróðurgerðum og hvar þær er að finna.

Niðurstöðurnar sýna að landnám plantna er bundið við ákveðin svæði eða yfirborðsgerðir en annars staðar er landnám lítið sem ekkert. Þá er ljóst að landnámið hefur gengið í bylgjum þar sem upphaf mávavarps í eyjunni hefur skipt sköpum.
Þær plöntutegundir sem hafa numið land hegða sér mjög misjafnlega, sumar hafa breiðst hratt út á meðan aðrar fara sér hægt. Af þeim tegundum sem fyrst komu hafa fjöruarfi, melgresi, varpafitjungur og blálilja breiðst mikið út. Af þeim sem síðar komu og hegða sér með svipuðum hætti má nefna varpasveifgras, skammkrækil og holurt. Sumar tegundir líkt og geldingahnappur og bjúgstör hafa hinsvegar þrátt fyrir áratuga veru í eyjunni lítið breiðst út.

Ljóst er að gróður í Surtsey breytist nú hratt, bæði eykst gróðurþekja og tegundir breiðast út. Að meðaltali hefur tegundum á hvern ha lands fjölgað um 45% á síðastliðnum 9 árum, þ.e. úr 4,47 teg/ha í 6,47 teg/ha. Gróðurbreytingar eru hinsvegar langmestar í og við mávavarpið syðst á eyjunni en þar finnast nú sums staðar yfir 25 tegundir háplantna á ha. Verulegar breytingar hafa einnig orðið á gróðri í og við stóra gíginn uppi á eyjunni allfjarri varpinu þar sem áhrif fugla eru tiltölulega lítil.“