Næsta fræðsluerindi á dagskrá Hins íslenska náttúrufræðifélags verður mánudaginn 26. febrúar 2007 kl. 17:15, í stofu 132, í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans. Þá flytur dr. Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur á Raunvísindastofun Háksólans, erindi sem hann nefnir „Gammablossar og heimsfræði“.
Í fyrirlestri dr. Gunnlaugs Björnssonar, stjarneðlisfræðings, verður saga rannsókna á gammablossum rakin stuttlega. Blossarnir eru hrinur háorkugeislunar sem berast til jarðar utan úr geimnum. Þá verður sagt frá tækninni sem notuð er til að afla sem mestra mæligagna þann stutta tíma sem hver atburður tekur.
Almennt er talið að blossarnir myndist í miklum hamförum við ævilok massamikilla stjarna og geta þeir orðir gríðarlega bjartir um skamma hríð. Þeir geta því sést langt að og standa vonir til að þá megi nota til þess að kortleggja eiginleika alheims. Í erindinu verða kynnt helstu einkenni blossanna og sagt frá líkaninu sem mest er notað við túlkun mælinga. Þá verða útskýrðar fyrstu tilraunir manna til að nota blossana í heimsfræði.