
Álfheiður Ingadóttir og Erling Ólafsson voru heiðruð fyrir störf í þágu félagsins. Hér taka þau við bók að gjöf í þakklætisskyni frá Kristínu Svavarsdóttur.
Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags var haldinn laugardaginn 24. febrúar 2007 í Safnahúsinu, húsakynnum Náttúrufræðistofu Kópavogs. Fundarstjóri var kosinn Hreggviður Norðdahl, jarðfræðingur og fyrrum varaformaður HÍN. Fundarritari var kjörin Þóra Hrafnsdóttir, líffræðingur.
Kristín Svavarsdóttir, formaður HÍN, flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2006 og Kristinn J. Albertsson fygldi reikningum félagsins úr hlaði. Reikningar félagsins voru samþykktir með öllum atkvæðum.
Í stjórn HÍN árið 2007 voru endurkjörin þau Esther Rut Guðmundsdóttir, meðstjórnandi, Helgi Torfason, varaformaður, og Hilmar J. Malmquist, ritari. Frá fyrra kjörtímabili sátu áfram Kristín Svavarsdóttur, formaður, Kristinn J. Albertsson, gjaldkeri, Droplaug Ólafsdóttir, meðstjórnandi, og Helgi Guðmundsson, meðstjórnandi. Arnór Þ. Sigfússon og Kristinn Einarsson voru endurkjörnir skoðunarmenn reikninga.
Á aðalfundinum voru samþykktar þrjár ályktanir sem lagðar voru fram af stjórn félagsins. Viðamesta ályktunin fjallar um Náttúruminjasafn Íslands, en auk þess var samþykkt ályktun um Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og ályktun um Geysi í Haukadal.
Tveir góðkunningjar HÍN voru heiðraðir fyrir störf í þágu félagsins á aðalfundinum, þau Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins, og Erling Ólafsson, fráfarandi dreifingar- og afgreiðslustjóri. Álfheiður ritstýrði Náttúrufræðingnum um tíu ára skeið frá 1996 til loka árs 2006 og sá um útgáfu á níu og hálfum árgangi (3.-4. hefti 66. árg. – 1.-2. hefti 74. árg.). Erling lét af störfum sem dreifingar- og afgreiðslustjóri tímaritsins um síðastliðin áramót eftir dygga þjónustu í um tvo áratugi. Kristín Svavarsdóttir, formaður HÍN, færði þeim Álfheiði og Erling bók að gjöf í þakklætisskyni.