SETLÖG, LÍFRÍKI OG HAFSTRAUMAR VIÐ NORÐURLAND

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. febrúar 2008 kl. 17:15 í stofu 132, Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Dr. Jón Eiríksson, jarðfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, flytur erindi sem hann nefnir „Setlög, lífríki og hafstraumar við Norðurland frá ísöld til okkar daga.“

Erindi dr. Jóns Eiríkssonar, jarðfræðings:

Í erindinu er fjallað um setlagarannsóknir á norðlenska landgrunninu. Sagt er frá borkjörnum sem spanna 50 þúsund ára sögu, og geyma upplýsingar um hafstrauma og loftslag á fyrri öldum. Í setinu varðveitist bæði plöntu- og dýrasvif ásamt botndýrum, og vegna þess hvað lífríkið er næmt fyrir breytingum í hafinu eru setlagakjarnarnir mikilvægur gagnagrunnur um fornloftslag. Eldgos á Íslandi hafa sent fjöldamörg tímamerki út í hafsbotnssetið, þannig að unnt er að greina breytingar frá áratug til áratugar. Vonast er til að rannsóknir á kúskeljum leiði til þess að hægt verði að fá fram breytingar á ástandi hafsins ár frá ári á síðustu öldum.