Annað vetrarerindi HÍN – Jöklabreytingar og loftslag

Mánudaginn 27. október 2008 flytur Fil. kand. Oddur Sigurðsson erindi um áhrif loftslagsbreytinga á jökla Íslands.
Erindið verður haldið kl. 17:15 í stofu 132, í Öskju, Háskóla Íslands.
20081015115544397239

Oddur Sigurðsson, Orkustofnun

Oddur starfar sem jarðfræðingur á Vatnamælingum (Orkustofnun) og er sérfræðingur á sviði jöklafræði. Hann hefur skrifað fjölda fræðigreina og bóka um jökla landsins. Oddur er viðurkenndur náttúruljósmyndari og eru skrif hans oft vel studd af faglegum ljósmyndum.

Ágrip erindis

Þar sem svo háttar til í heiminum að meira snjóar að vetrinum en bráðnar yfir sumarið safnast snjórinn saman og verður að lokum svo þykkur að hann tekur að hníga undan eigin fargi líkt og seigfljótandi massi. Þetta gerist yfirleitt þegar hann er orðinn um 40-50 m þykkur. Til þessa að svo verði þarf annað tveggja mikla vetrarúrkomu eða kalt loftslag og ef þetta fer saman má vænta mikla jökla. Jöklar eru með öðrum orðum afsprengi loftslagsins.

Geysilegar breytingar hafa orðið á íslenskum jöklum á sögulegum tíma og sennilega eru þær hvað örastar á okkar dögum. Talið er að jöklarnir hafi verið mun umfangsminni á landnámsöld heldur en nú. Að öllum líkindum hefur veðurfar kólnað nokkuð samfellt fyrstu 1000 ár Íslandsbyggðar og voru jöklar stærstir í kringum 1890 og höfðu þá ekki orðið stærri síðan ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Á 20. öld hlýnaði töluvert í heiminum og fór Ísland ekki varhluta af því. Jöklar landsins minnkuðu þá um það bil jafnmikið og þeir höfðu stækkað næstu 3 aldir þar á undan þrátt fyrir kuldatímabil eftir 1965 en þá stækkuðu þeir bæði að rúmmáli og flatarmáli. Síðustu 12 árin tók steininn úr. Sennilega er það hlýjasta 12 ára tímabil í Íslandssögunni, enda rýrna jöklar örar nú en vitað er til um að gerst hafi áður. Lætur nærri að flatarmál jöklanna minnki nú um 0,3% á ári hverju og rúmmálið um allt að 0,5%. Með slíku áframhaldi endast þeir vart meira en tvær aldir.

20081015115532829067

Blágnípujökull, sjá má hversu hátt hann stóð í fjallshlíðinni áður fyrr.

Afkoma jökla er háð mörgum þáttum. Þeirra mikilvægastir eru hiti að sumri og úrkoma að vetri. Samkvæmt afkomumælingum á íslenskum jöklum í meira en tvo áratugi þá sveiflast afkoman yfir sumarið miklu meira milli ára en afkoman um veturinn. Af því má ráða að sumarhiti ráði mestu um breytilega stærð jökla en snjókoma minna. Það hefur líka sýnt sig að breytingar á sporðum margra jökla fara ótrúlega nærri breytingum á sumarhita.
Jöklar skiptast í tvær gerðir eftir innra eðli. Sumir jöklar skríða ekki nógu hratt að jafnaði til að skila ákomu hið efra niður á leysingarsvæðið. Ástæða þessa er ekki þekkt. Afleiðingin er að jöklarnir verða svo brattir með tímanum að þeir hljóta að hlaupa fram. Slíkir jöklar kallast framhlaupsjöklar og eru af öllum stærðum víðs vegar um landið. Vegna þessa eðlis síns gefa framhlaupsjöklar litlar upplýsingar um breytilegt loftslag.
Utanaðkomandi þættir aðrir en loftslag geta haft veruleg áhrif á afkomu jökla. Þeirra helstir eru lón sem jökullinn kelfir í, aurkápa á yfirborði jökulsins sem tefur mjög bráðnun, eldgos sem geta brætt stóran hluta jökuls í einu vetfangi og jarðhiti sem bræðir suma jökla neðan frá án afláts. Alls þessa verður að gæta þegar mældar breytingar eru túlkaðar út frá loftslagi. Í erindinu verða sýnd dæmi um mismunandi gerðir jökla og hvernig sjá má á þeim hvert eðlið er. Þar eru m.a. Hyrningsjökull í Snæfellsjökli sem svarar veðurfarsbreytingum strax, Síðujökull en hann gengur einungis fram í snöggum stökkum á nokkurra áratuga fresti, Gígjökull í Eyjafjallajökli var nánast bræddur til þurrðar í eldgosi 1821-1823, Breiðamerkurjökull en úr honum sýgur Jökulsárlón merginn og tvíburarnir Hoffellsjökull og Svínafellsjökull í Hornafirði sem búa við misjafnan vöxt þótt atlætið sé svipað.

20081015115552284947

Sólheimajökull árið 2006. Merktar eru línur sem sýna yfirborð jökulsins árin 1997, 2000 og 2003.