Þriðja vetrarerindi HÍN – Verndun og varðveisla íslenskra hraunhella

Mánudaginn 24. nóvember 2008 flytur Árni B. Stefánsson augnlæknir erindi um hella á Íslandi.

Erindið verður haldið kl. 17:15 í stofu 132, í Öskju, Háskóla Íslands.

20081023154853923881
Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður
Árni er stúdent frá MR árið 1969 og nam læknisfræði við Háskóla Íslands árin 1969-1975. Hann hlaut lækningaleyfi árið 1976 og stundaði sérfræðinám í augnlækningum við Universitäts Augenklinik í Freiburg í Þýskalandi árin 1978-1982.
Árni hefur haft áhuga á hraunhellum frá barnæsku og leitaði m.a. kerfisbundið að þeim í fjölmörg ár. Hann hefur birt allmargar greinar um hraunhella, haldið um þá erindi hérlendis og erlendis og beitt sér fyrir verndun þeirra og varðveislu.

Ágrip erindis

Vegna uppstreymis kviku undir landinu er hlutfallslega meiri hraun- og gjóskuframleiðsla á Íslandi á flatareiningu lands en víðast gerist. Nútímahraun og myndanir þeirra eru jarðfræðilega afar ung. Myndanir hraunhella eru tiltölulega ferskar og iðulega afar brothættar. Þær brotna við minnstu snertingu, oft er erfitt að sjá þær, fólk rekur sig í þær og margar þeirra hafa orðið söfnunargirni að bráð. Heimsóknir manna hafa því iðulega neikvæð áhrif á viðkvæmt umhverfi hraunhellanna. Alþekkt er að flestir þekktustu hraunhellar landsins hafa orðið fyrir stórkostlegum skaða af mannavöldum.

20081023154851788936

Mynd 1. Einn stærsti dropsteinn hérlendis fannst brotinn í Vatnshelli í apríl 2007. Ljósm. Árni B. Stefánsson.

Árni hefur allt frá barnæsku haft áhuga á verndun og varðveislu hraunhella og rekur þá sögu í fáum orðum. Rætt verður um mikilvægi hófsemi og varkárni við umfjöllun um hella áður en verndun viðkvæmra myndana hefur verið tryggð. Minnst verður á skýrslur tveggja breskra rannsóknarhópa frá 2002 og 2005 þar sem hnit fjölmargra hraunhella eru gefin upp. Einnig verður sagt frá neikvæðri afstöðu bresku hellasamtakanna NCA gagnvart leynd sem verndunaraðferð og þeirri staðreynd að þeir virðast einir um þá skoðun. Að auki verður rætt hvers vegna slík afstaða á alls ekki við í strjálbýlu landi eins og Íslandi.
Þá kynnir Árni niðurstöður athugana sinna á skaða af mannavöldum á þremur völdum hellum, Vatnshelli, Borgarhelli og Leiðarenda. Að auki fer hann yfir mótsagnakenndar staðhæfingar í nýlegu uppflettiriti um hraunhella landsins og gagnrýnir birtingu á hnitum yfir 500 hellisopa. Samhengi blaðagreinar á 7. áratugnum og skemmda á viðkvæmum helli innan örfárra vikna verður rætt.

20081023154854486272

Mynd 2. Dropsteinn við vegg í Leiðarenda í byrjun apríl 2007. Steinninn reyndist horfinn uppúr miðjum júní sama ár. Ljósm. Árni Bragason.