NÝ STJÓRN HÍN KOSIN

Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags var haldinn laugardaginn 28. febrúar 2009 í Safnahúsinu, fundarsal Náttúrufræðistofu Kópavogs. Ný stjórn var kosin fyrir tímabilið 2009–2010 og hana mynda: Kristín Svavarsdóttir formaður, Esther Ruth Guðmundsdóttir varaformaður, Hilmar J. Malmquist ritari, Kristinn J. Albertsson gjaldkeri, Droplaug Ólafsdóttir meðstjórnandi, Helgi Guðmundsson meðstjórnandi og Ester Ýr Jónsdóttir meðstjórnandi.

Endurkjörin í stjórn voru þau Esther Ruth Guðmundsdóttir og Hilmar J. Malmquist. Þá var kjörin ný í stjórnina Ester Ýr Jónsdóttir í stað Friðgeirs Grímssonar, sem ekki sá sér fært að starfa lengur í stjórn HÍN vegna náms erlendis. Ester Ýr er lífefnafræðingur að mennt og starfar sem framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Kristín Svavarsdóttir, formaður félagsins, Droplaug Ólafsdóttir, Helgi Guðmundsson og Kristinn J. Albertsson sitja öll áfram í stjórn frá síðasta stjórnarkjöri.

Um embættisskipan stjórnarmanna hjá félaginu má lesa hér.

Kristín Svavarsdóttir formaður, las skýrslu stjórnar fyrir árið 2008 og gerði grein fyrir því helsta í starfsemi félagsins. Félagar eru um 1200 talsins og hefur fjöldinn haldist svo til óbreyttur í nokkur ár. Kristinn J. Albertsson gerði grein fyrir reikningum félagsins á árinu 2008.

Á aðalfundinum voru samþykktar fjórar ályktanir, þ.e. um Árósasamninginn, náttúruverndaráætlun 2009–2013, Náttúruminjasafn Íslands og Gröndalshús. Ályktanirnar verða birtar hér á heimasíðunni innan tíðar.