Síðasti fræðslufundur HÍN fyrir sumarhlé – Stjörnuhimininn yfir Íslandi

Mánudaginn 27. apríl flytur Snævarr Guðmundsson erindi um stjörnuhimininn yfir Íslandi.

Erindið verður haldið kl. 17:15 í fyrirlestrarsal Menntaskólans við Sund að Gnoðarvogi 43.

Snævarr Guðmundsson fjallar um stjörnuhimininn yfir Íslandi. Snævarr hyggst sýna ljósmyndir sem hann hefur sjálfur tekið af stjörnum og ýmsum geimþokum og jafnframt mun hann fjalla um þær aðferðir sem beitt er við myndatökur af slíku tagi. Snævarr mun einnig greina frá nokkrum viðfangsefnum sem hann hefur komið nærri á síðustu árum. Snævarr tilheyrir hópi áhugamanna um stjörnuskoðun og hefur sinnt þessu hugðarefni sínu um árabil. Nú er alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar og því telur stjórn HÍN við hæfi að ljósmyndir Snævars verði aðalefni síðasta fræðslufundar sem haldinn verður að sinni.
Fyrir nokkrum árum kom út eftir Snævar Guðmundsson „Íslenskur stjörnuatlas“ (Mál og menning, 2004) sem mun vera fyrsta íslenska ritið þar sem fjallað er sérstaklega um þær stjörnur sem birtast á himinhvolfinu yfir höfðum landsmanna eftir að skyggja tekur og skýin byrgja þeim ekki sýn.