Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað í leikfimishúsi barnaskólans í Reykjavík þann 16. júlí 1889. Félagið er því 120 ára um þessar mundir. Félagsmönnum er óskað til hamingju með þennan merka áfanga. Örfá félög hérlendis hafa starfað samfleytt svo lengi. Einn helsti tilgangur félagsins hefur verið að koma á fót náttúruminjasafni í Reykjavík fyrir þjóðina. Á ýmsu hefur gengið í þeim efnum, eins og fræðast má um hér á heimasíðunni undir tenglinum Náttúruminjasafn.
Staða mála í dag er varðar safnaðstöðu er í raun verri en fyrir 120 árum. Í árdaga safnsins var frumstæð sýningaraðstaða fyrir hendi en svo er ekki í dag. Blómaskeið safnsins var á tímabilinu 1908-1947 þegar safnið var til húsa í hinu glæsilega Safnahúsi, sem nú heitir Þjóðmenningarhús. Í dag er málum þannig háttað að sýningaraðstöðunni að Hlemmi var lokað vorið 2008 og safnkostur í eigu Akureyrarbæjar í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands var pakkað niður árið 2002.
Þrátt fyrir að einn helsti tilgangur með stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags hafi ekki enn ræst geta félagsmenn verið stoltir af öðrum áföngum sem leitt hefur af starfsemi félagsins. Fyrst skal nefnt að stofnað var til Náttúruminjasafns Íslands með lögum vorið 2007 og þar með tekið mikilvægt skref af hálfu ríkisins í þá átt að efna til safns í náttúrufræðum sem hæfir þjóð og landi. Þá ber að geta þess að Náttúrufræðistofnun Íslands, sem var formlega sett á laggirnar með löggjöf árið 1965, er afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags, en fyrstu starfsmenn stofnunarinnar voru áður starfsmenn við náttúrugripasafn félagsins. Þriðja atriðið sem vert að benda á er útgáfa Náttúrufræðingsins, hins alþýðlega fræðslurits um náttúrufræði sem gefið hefur verið út samfleytt í 78 ár, eða síðan árið 1931.