Gróðurframvinda í Skaftáreldahrauni

Fyrsta fræðsluerindi HÍN í vetur verður haldið mánudaginn 26. október 2009 og fer það fram í fyrirlestrasal Menntaskólans við Sund að Gnoðarvogi 43. Erindið hefst kl. 17:15. Það er Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðingur og kennari við Menntaskólann að Laugarvatni sem ríður á vaðið. Erindið nefnir hún „Gróðurframvinda í Skaftáreldahrauni og áhrif hraungambra (Racomitrium lanuginosum) á landnám háplantna.“

Ágrip erindis:
Hraungambri (Racomitrium lanuginosum) er áberandi í íslenskum nútímahraunum en óvíða er hann jafngróskumikill og í Skaftáreldahrauni. Þar myndar hann mjög þykka og samfellda mottu á láglendi en á hálendi eru breyskjufléttur (Stereocaulon teg.) meira áberandi. Landnám háplantna hefur hins vegar gengið hægt og nú, um 230 árum eftir gos, eru þær enn víðast hvar strjálar.

Markmið verkefnisins var að greina helstu umhverfisþætti sem stýra stefnu og hraða gróðurframvindu í Skaftáreldahrauni. Með gróðurmælingum á hrauninu og beinum tilraunum var reynt að greina áhrif a) loftslags b) fræregns, c) yfirborðsbreytileika innan hraunsins og d) áhrif hraungambra á landnám háplantna.

Þegar komið var 1 km inn í hraunið var heildarþekja háplantna að jafnaði um 9% á láglendi (30-85 m y.s.) og 2% á hálendi (440-510 m y.s.). Þó var ekki marktækur munur á tegundaauðgi háplantna á hálendi og láglendi. Tegundaauðgi lækkaði lítillega eftir því sem lengra dró inn í hraunið en grasleitum tegundum og tvíkímblaða jurtum fækkaði en trjákenndum tegundum ekki. Mosamottan mældist mun þykkari á hraunsléttu (að meðaltali 34 sm á láglendi, 28 sm á hálendi) en í dældum (22 cm á láglendi, 8 cm á hálendi). Háplöntuþekja mældist marktækt meiri í dældum en á hraunsléttu.

Áhrif hraungambra á landnám háplantna voru prófuð með tilraun þar sem spírun og uppvöxtur kímplantna í óraskaðri mosamottu voru borin saman við meðferðir þar sem a) lifandi hluti mosans hafði verið fjarlægður, b) mosamottan hafði verið fyllt að 2 sm með silti og c) þar sem silt hafði alveg fyllt hraunið (og mosann). Túnvingull (Festuca richardsonii) og lambagras (Silene acaulis) spíruðu marktækt betur í mosamottu með silti en í óröskuðum mosa. Þykkt siltlag sem þekur mosamottuna var hins vegar óhagstæðari beður (e. safe site) fyrir túnvingul en spírun lambagrass var ekki marktækt frábrugðin óraskaðri mosamottu.

Niðurstöðurn sýna að háplöntur eiga erfitt uppdráttar í þykkri mottu hraungambra og að mosinn tefji þannig frekari gróðurframvindu í Skaftáreldahrauni. Fræregn frá grenndargróðri virtist aðeins hafa staðbundin áhrif á tegundasamsetningu næst hraunjaðri.