Jöklar á Íslandi – nýr fundarstaður!

20091124125700062847Næsta fræðsluerindi HÍN er á mánudaginn 30. nóvember og hefst kl. 17:15, en þá mun dr. Helgi Björnsson, jöklafræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans, flytja erindi sem hann nefnir Jöklar á Íslandi í upphafi 21. aldar og framtíðarhorfur.

Athygli er vakin á því að tilhögun fundarins er breytt. Í fyrsta lagi verður erindið flutt í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, en ekki í sal Menntaskólans við Sund eins og auglýst var í síðasta félagsbréfi.

Í öðru lagi standa Jöklarannsóknafélag Íslands og útgáfufyrirtækið Opna ehf. að erindinu auk HÍN.

Í þriðja lagi mun félagsmönnum standa til boða að kaupa á hagstæðu verði á staðnum glænýja og veglega bók dr. Helga, Jöklar á Íslandi, sem Opna ehf. gefur út.

Ágrip af erindi dr. Helga Björnssonar, jöklafræðings við Raunvísindastofnun Háskólans, mánudaginn 30. nóvember 2009.

Nú, þegar hulunni hefur verið svipt af landinu undir jöklum Íslands, þá hafa komið í ljós fjöll, dalir og hásléttur, megineldstöðvar með öskjum, stöpum, og móbergshryggjum, dyngjur og trog, sem ná 300 m niður fyrir sjávarmál. Svo lágt er landið, að hyrfu jöklarnir alveg, gæti aðeins myndast um einn tugur smájökla á hæstu fjallatindum við núverandi loftslag, og samanlagt yrðu þeir tífalt minni en jöklarnir eru nú. Jökulhvelin hafa því orðið til við kaldara loftslag. Enn eru þau að meðaltali um 350 m þykk (mest 950 m) og rísa svo hátt, að safnsvæði eru nægilega stór til þess að halda þeim við; þau lifa á eigin hæð. Í jöklunum er bundinn vatnsforði, sem svarar til úrkomu á Íslandi í 20 ár; jafndreifður yfir allt landið væri jökulísinn 35 m þykkur. Jöklar þekja nú um tíunda hluta landsins, en áhrifa þeirra gætir að ósum mestu vatnsfalla.

Við hlýnandi loftslag undanfarandi 15 ára hafa meginjöklarnir misst um 1 m af þykkt sinni á ári, metið jafndreift yfir heildarflöt þeirra; snælína hefur risið 200-400 m, og safnsvæði jöklanna er nú aðeins helmingur þess sem þarf til þess að þeir haldist við. Jöklarnir hafa rýrnað hratt, og líkur benda til enn frekari hlýnunar og að jöklar hverfi að mestu á næstu tveimur öldum. Framundan virðast vera hröðustu breytingar á umhverfi, sem orðið hafa, frá því að land byggðist. Áhrifanna mun gæta á vatna- og gróðurfar, landnýtingu, samgöngur, vatnsaflavirkjanir, landris og jafnvel eldvirkni.