„Senn bryddir á Barða“ Stutt samantekt um Kötlu

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. febrúar 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er dr. Bergrún Arna Óladóttir, jarðfræðingur hjá Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, sem flytur erindi sem hún nefnir „Senn bryddir á Barða“ Stutt samantekt um Kötlu.

Ágrip af erindi

„Katla er eitt þekktasta eldfjall Íslands, en hún er hluti af ~80 km löngu eldstöðvakerfi sem er staðsett á Eystra gosbeltinu. Kerfið samanstendur af megineldstöð og sprungusveimi sem teygir sig í NA út frá henni. Mýrdalsjökull hylur hluta megineldstöðvarinnar og undir honum er 600-750 m djúp askja. Ef litið er til gostíðni er Katla fjórða virkasta eldstöðvakerfi landsins á eftir Grímsvötnum, Bárðarbungu og Heklu en miðað við framleiðni eldstöðvakerfanna á sögulegum tíma (eftir ~870 AD) þá hefur Katla vinninginn, en hún hefur myndað um 25 km3 í um 20 gosum.

Þrennskonar gosvirkni er þekkt á kerfinu á Nútíma: (1) basísk þeytigos og (2) súr þeytigos, sem myndast er gossprungur opnast undir jökli, og (3) basísk flæðigos sem myndast að mestu á íslausa hluta sprungusveimsins. Basísku þeytigosin eru langalgengust en rannsóknir hafa leitt í ljós meira en 300 slík gos á síðustu 8400 árum. Í fyrirlestrinum verður gefið gróft yfirlit yfir rannsóknir á Kötlu, farið verður yfir gossögu Kötlu eins og hún er skrifuð í gjóskulög á sögulegum og forsögulegum tíma auk þess sem örlítil innsýn verður gefin í yfirstandandi rannsóknir.“

20110215200808702602Bergrún Arna Óladóttir er fædd árið 1978. Hún lauk BS. prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 2003, DEA (mastersígildi) í eldfjallafræði frá Université Blaise Pascal í Clermont-Ferrand, Frakklandi árið 2004 og útskrifaðist með sameiginlega doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og Université Blaise Pascal árið 2009. Bergrún starfar sem jarðfræðingur hjá Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og aðalrannsóknarefni eru íslensk gjóskulög.