Ný útgáfa á bláu Þingvallabókinni

Þingvallanefnd og Bókaútgáfan Opna ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi efna til samkomu í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, miðvikudaginn 9. mars kl. 17.00 til heiðurs Pétri M. Jónassyni níræðum og í tilefni af nýrri útgáfu bókarinnar Þingvallavatn – Undraheimur í mótun, sem kemur nú út á ensku í fyrsta skipti, aukin og endurbætt, undir heitinu Thingvallavatn – a unique world evolving, í ritstjórn Péturs M. Jónassonar og Páls Hersteinssonar.20120214114624783291

Flutt verða ávörp og boðið upp á léttar veitingar í anddyrinu eftir athöfnina.
Meðal ræðumanna verður prófessor Bror Jonsson vatnalíffræðingur hjá Norsk Institutt for Naturforskning, en hann kom að Þingvallavatnsrannsóknum á níunda áratugnum og sinnti athugunum á bleikjugerðunum fjórum í vatninu. Prófessor Bror er einn virtasti núlifandi fræðimaðurinn á sviði fiskavistfræði, einkum er varðar líffræði urriða og skyldra fiska af laxfiskaætt.

Félagsmenn HÍN eru allir velkomnir og hvattir til að mæta og heiðra Pétur og hans merka framlag til náttúrufræða á Íslandi.

Vonir standa til að bókin verði til sölu á staðnum á hagstæðu verði fyrir félagsmenn.