Staðbundið veður

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. mars 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er dr. Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands og prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands, sem flytur erindi sem hann nefnir Staðbundið veður.

20110325114342040462

Ágrip af erindi

„Með tilkomu öflugra reiknivéla og sjálfvirkra veðurathugana hefur á síðustu árum verið staðfest að breytileiki í veðri og veðurfari frá einum stað til annars er gríðarmikill. Á það jafnvel við þótt stutt sé milli staða. Leitast er við að kortleggja breytileikann með tölulegum aðferðum og í tengslum við þá vinnu kemur ýmislegt í ljós sem vegur að ríkjandi hugmyndum eða hugmyndaleysi um staðbundið veður. Þar má nefna samspil hafgolu og brekkuvinds, fallvinda og landgolu, úrkomuákefð, loftstíflur og vindrastir í grennd við fjöll. Síðast en ekki síst má nefna að aldagömul hugmynd um orsök hlýinda í hnjúkaþey sem ratað hefur í margar kennslubækur virðist á sandi reist.”

Haraldur Ólafsson er fæddur árið 1965. Hann lauk cand. mag. prófi í jarðeðlisfræði, stærðfræði og eðlisfræði við Háskólann í Osló 1984, cand. scient. prófi í veðurfræði við sama skóla árið 1991 og doktorsprófi við Háskóla Paul Sabatier í Toulouse í Frakklandi árið 1996. Haraldur starfaði um hríð á Veðurstofu Íslands við veðurspár og rannsóknir og var annar stofnenda Reiknistofu í veðurfræði. Hann hefur verið prófessor við Háskólann í Björgvin og er nú prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands.