Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 2. maí 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Magnús Jóhannsson, vatnalíffræðingur og sérfræðingur hjá Veiðimálastofnun, sem flytur erindi sem hann nefnir Fiskstofnar Þjórsár og göngur þeirra.
Ágrip af erindi
„Þjórsá er annað vatnsmesta vatnsfall landsins á eftir Ölfusá. Í Þjórsá lifa allar þær fisktegundir sem algengar eru í fersku vatni á Íslandi, þ.e. lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Lax og urriði eru ríkjandi tegundir laxfiska í Þjórsá. Í Þjórsá ásamt þverám hennar er að finna einn af stærri laxastofnum landsins og talsverður stofn sjóbirtings gengur á vatnasvæðið. Þar eru einnig staðbundin bleikja og urriði. Samkvæmt mati á stærð og gæðum búsvæða fyrir lax á fiskgegnum svæðum á vatnasvæði Þjórsár er mestur hluti náttúrulegra laxa sem gengur á vatnasvæðið alinn upp í Þjórsá sjálfri. Miklar nytjar eru af veiði í Þjórsá en þar er einkum stunduð netaveiði. Í erindinu verður farið yfir lífssögu laxfiska í Þjórsá með sérstakri áherslu á lax og sjóbirting og göngur þeirra milli ferskvatns og sjávar.”
Magnús Jóhannsson er fæddur árið 1954. Hann lauk BS. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1978 og cand scient prófi í vatnalíffræði, sérsvið; vistfræði vatnafiska, við Óslóarháskóla árið 1984. Magnús hefur starfað sem sérfræðingur hjá Veiðimálastofnun frá árinu 1986.