Ertuyglan og hugsanleg áhrif hennar á lúpínu Íslandi

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. september 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er dr. Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur og rannsóknarstjóri hjá Landgræðslu ríkisins, sem flytur erindi sem hann nefnir Ertuyglan og hugsanleg áhrif hennar á lúpínu Íslandi.

Ágrip af erindi

„Ertuygla Melanchra pisi L. var einkum bundin við sunnanvert landið frá Melasveit austur í Lón, en á síðustu árum hefur útbreiðslusvæðið stækkað, einkum á Vesturlandi. Fiðrildin verpa um mitt sumar og lirfurnar klekjast úr eggi í júlí. Þær lifa á ýmsum plöntum, ekki hvað síst plöntum af ertublómaætt, en einnig á trjáplöntum. Lirfurnar púpa sig að haustinu eða leggjast í dvala og púpast að vori/byrjun sumars. Á síðustu árum hefur borið mikið á faröldrum ertuyglulirfa, einkum í lúpínu. Fyrsti þekkti faraldurinn var sumarið 1991 í Morsárdal en síðan hafa þessir faraldrar breiðst yfir mestallt útbreiðslusvæði ertuyglunnar og aflaufgað hundruð/þúsundir hektara af lúpínu árlega. Óvíst er hvaða áhrif þetta hefur á lúpínuna og þróun annars gróðurs á lúpínusvæðum, en á þeim svæðum þar sem ertuyglan hefur herjað lengi virðast lúpínan vera að byrja að láta undan síga. Jafnframt hefur ertuyglan í sívaxandi mæli skemmt trjágróður, einkum plöntur sem hafa verið gróðursettar inn í lúpínubreiður, en einnig á svæðum þar fyrir utan. Rannsóknir benda til þess að eins árs aflaufgun trjáplantna af völdum ertuyglu valdi ekki marktækri aukningu á afföllum þeirra.”

20110917121106716640Guðmundur Halldórsson er fæddur árið 1952. Hann lauk BS. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1977 og PhD prófi í landbúnaðarvísindum, sérsvið; skordýr á nytjajurtum, við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn árið 1985. Guðmundur starfaði sem sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, á árunum 1991-2006 og sem rannsóknastjóri Landgræðslu ríkisins frá árinu 2007.