Með kúlustrýnebbu undir eldhúsvaskinum – funga íslenskra húsa

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 31. október 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri, sem flytur erindi sem hún nefnir Með kúlustrýnebbu undir eldhúsvaskinum – funga íslenskra húsa.

Ágrip af erindi

„Kúlustrýnebba, Chaetomium globosum, er asksveppur með skrautlegar askhirslur (sjá mynd neðar) sem brýtur niður beðmi, getur framleitt sveppaeiturefni (mycotoxins) og vex stundum á rökum spónaplötum innanhúss. Sveppir eru hluti af því vistkerfi sem verður til innanhúss eftir vatnsskaða eða þegar of rakt er í húsnæðinu. Með þeim vaxa bakteríur og um mygluflekkina spranga mítlar og mordýr sem bæði nærast á sveppunum og sjá um að dreifa þeim. Innanhúss vex mest af vankynssveppum ásamt asksveppum sem mynda smáar askhirslur. Kjallaraskál, Peziza varia, og lagðblekill, Coprinopsis jonesii, mynda stæðileg aldin sem spretta stöku sinnum upp innanhúss. Tegundin Cladosporium sphaerospermum er líklega algengasti innanhússsveppurinn t.d. í kuldabrúm í hornum og við gler í gluggum.

Þótt vatnskortur komi í veg fyrir að gró spíri þá eru til sveppir sem geta vaxið á flestu því efni sem notað er innanhúss ef raki er til staðar. Síðustu 15 – 20 ár hefur raki í húsum og vistkerfið sem í þeim þrífst verið rannsakað frá ýmsum sjónarhornum í Danmörku og Finnlandi og leiðbeiningar til byggingariðnaðarins byggðar á niðurstöðunum. Á Íslandi áttuðu menn sig fyrst á því árið 2005 að rakasæknar örverur væru varasamar í sambúð.”

20111023214954180272Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fæddist haustið 1959. Að loknu B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1981 hóf hún rannsóknir á sveppum og lauk doktorsprófi í sveppafræði frá grasafræðideild Manitobaháskóla í Winnipeg árið 1990. Hún starfar sem sveppafræðingur á Náttúrfræðistofnun Íslands á Akureyri, rannsakar fungu Íslands og gætir sveppasafns stofnunarinnar.