Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. nóvember 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Dr. Árni Hjartarson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, sem flytur erindi sem hann nefnir Hallmundarkviða og Hallmundarhraun. Eldforn lýsing á eldsumbrotum.
Ágrip af erindi
„Í fyrirlestrinum verður sagt frá Hallmundarhrauni í Borgarfirði. Það er í hópi stærstu hrauna landsins, auðugt af hellum og ýmis konar hraunmyndunum og miklar lindir og lindasvæði tengjast því. Það er ungt og að öllum líkindum frá landnámsöld en aldursgreiningar á því eru misvísandi. Greint verður frá áhrifum hraunrennslisins á byggð og byggðasögu Borgarfjarðar. Nokkrir bæir virðast hafa horfið í hraunið og ýmis örnefni og forn landamerki gefa vísbendingar um aðstæður á svæðinu áður en hraunið rann. Ýmsar sagnir tengjast Hallmundarhrauni, ekki síst um útilegumenn, og hið forna og torræða kvæði Hallmundarkviða er talin lýsa eldgosinu og hraunrennslinu. Frá náttúrufræðilegu sjónarmiði er kviðan einn merkilegasti texti fornritanna en hefur lengst af verið vanmetin sem slík. Hún lýsir eldsumbrotum og viðhorfum heiðinna manna til þeirra og setur hamfarirnar í goðsögulegt samhengi. Í kvæðinu er greint frá aðdraganda gossins, gangi þess og ýmsum afleiðingum. Í erindinu verða settar fram tilgátur um aldur Hallmundarkviðu og höfund hennar, tímasetningu eldsumbrotanna og tímaskeið Hellismanna.“
Árni Hjartarson (f. 1949) lauk B.Sc-prófi í jarðfræði frá HÍ 1974, MSc-prófi í vatnajarðfræði frá sama skóla 1994 og PhD-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 2004. Hann starfaði lengi sem sérfræðingur hjá Orkustofnun og vinnur nú hjá Íslenskum orkurannsóknum. Starfssvið hans er einkum á sviði kortlagningar, grunnvatns og jarðhita. Hann hefur einnig fengist við ýmis konar rannsóknir aðrar s.s. á skriðuföllum, hraunum og manngerðum hellum.