Vistheimt á Íslandi í eina öld – hvað höfum við lært?

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. janúar 2012 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Ása L. Aradóttir, vistfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem flytur erindi sem hún nefnir Vistheimt á Íslandi í eina öld – hvað höfum við lært?

Ágrip af erindi

„Vistheimt hefur verið skilgreind sem ferli er stuðlar að endurheimt vistkerfa sem hefur hnignað, hafa skemmst eða eyðilagst. Skipulegt starf að vistheimt á Íslandi spannar rúma öld, frá því að sett voru lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands árið 1907. Í kjölfar þess var meðal annars skógarleifum bjargað á nokkrum stöðum og birkiskóglendi endurheimt í nágrenni þeirra. Mikinn hluta síðustu aldar var einkum lögð áhersla á að stöðva sandfok og græða upp örfoka land til þess að vernda byggð, bæta búskaparskilyrði og „greiða skuldina við landið”. Þær aðgerðir leiddu oft til vistheimtar, þó hún hafi í fæstum tilvikum verið upphaflegt markmið þeirra. Á síðustu áratugum hefur áhersla á endurheimt mikilvægra vistkerfa í íslenskri náttúru, svo sem votlendis og birkiskóga, farið vaxandi. Sú áhersla tengist meðal annars verndun líffræðilegrar fjölbreytni og viðleitni til að binda kolefni og draga þannig úr gróðurhúsaáhrifum.“

20120120231331424450

Á síðasta ári gáfu Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins út ritið Vistheimt á Íslandi. Þar er í fyrsta sinn birt samantekt yfir vistheimt á Íslandi og rannsóknir í hennar þágu. Alls er í ritinu lýst 85 vistheimtarverkefnum sem ná yfir um 1700 km2. Í erindinu verður stiklað á stóru um sögu og árangur vistheimtar hér á landi síðustu öldina og rætt um lærdóma sem draga má af þeirri reynslu.

Ása L. Aradóttir fæddist árið 1959. Hún lauk B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1981, M.S. prófi í líffræði frá Montana State University 1984 og doktorsprófi í vistfræði og stjórnun úthaga (Rangeland Ecology and Management) frá Texas A&M University 1991. Ása starfaði við Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá 1991-1998, var sviðsstjóri rannsóknarsviðs Landgræðslu ríkisins 1998-2006 en hefur verið prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands síðan 2006.