Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. febrúar 2012 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Dr. Páll Imsland, jarðfræðingur og kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, sem flytur erindi sem hann nefnir Að fara litum. Litbreytingaferli litföróttra hrossa.
Ágrip af erindi
„Litafjölbreytnin í íslenska hrossastofninum er með því mesta sem gerist í hrossastofnum heimsins. Þar á meðal er litföróttur litur. Hann hefur verið til í stofninum allt frá landnámstíð og finnst í nokkrum öðrum hrossastofnum einnig. Í raun er þetta litbreytingaferli fremur en litur og framkallar árstíðabundna litbreytingu hjá hrossunum. Í fræðibókum um hrossaliti hefur þetta fyrirbæri ýmist ekki verið skilið réttum skilningi eða alls skilið yfir höfuð og hér á landi hafa lýsingar á hegðun þess heldur ekki verið réttar fyrr en á síðustu árum. Leyndardómar þess “að fara litum”, eins og ferlið hét hérlendis, uppgötvuðust á síðasta áratug síðustu aldar, er höfundur fylgdist kerfisbundið með litföróttum hrossum í nokkur ár samfellt. Ferlið byggist á því að hross eins og ýmis önnur spendýr hafa tvo feldi, einangrandi undirhárafeld og verjandi yfirhárafeld sem þau endurnýja árlega. Hjá litföróttum hrossum eru þessir tveir feldir ólíkir á litinn, undirhárafeldurinn er hvítur en yfirhárafeldurinn með hvaða grunnlit sem vera skal og á annað borð finnst í stofninum. Við endurnýjun feldsins, hárfelli og nývöxt hára, skipta litförótt hross því um lit og sveiflast litaskiptin frá nær alhvítu yfir í aldökkt. Sagan af uppgötvun leyndardómsins verður rakin í fyrirlestrinum og litbreytingarnar útskýrðar bæði í máli og myndum.“
Páll Imsland (f. 1943) er jarðfræðingur með B.Sc.-próf í almennri jarðfræði 1973, B.Sc.-próf meira 1978 í jarð- og eldfjallasögu Jan Mayen og Dr. Sci.-próf í eldfjallafræðum og bergfræði Jan Mayen 1985, öll prófin frá H.Í.
Hann er nú kennari við MH, en vann áður á Norrænu eldfjallastöðinni og Raunvísindastofnun Háskólans, einkum að rannsóknum á náttúruhamförum og kortlagningu áhrifanna af þeim og hefur skrifað um það og ýms önnur jarðfræðileg málefni. Hann hefur stundað ljósmyndun og rannsóknir á hrossalitum sem áhugamál frá því um 1990 og skrifað ýmislegt um þau mál og haldið fyrirlestra.