Af aðalfundi HÍN 2012

Aðalfundur HÍN var haldinn laugardaginn 25. febrúar 2012 í húsakynnum Náttúrufræðistofu Kópavogs. Árni Hjartarson formaður félagsins flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2011 sem lesa má hér. Í máli Árna kom m.a. fram að félagafjöldi við lok árs 2011 var 1296, sem er nær sami fjöldi og árið á undan. Þetta verður að teljast viðunandi í ljósi
bágs efnahagsástands og almenns aðhalds í þjóðfélaginu. Einnig verður að telja það ánægjuleg tíðindi að málgagn félagsins, Náttúrufræðingurinn, hafi komið út á nær réttum tíma á árinu 2011. Síðasti Náttúrufræðingurinn í 81. árgangi kom úr prentsmiðju rétt fyrir áramótin 2011–2012 og til félagsmanna rétt eftir þau.

20120307161028003224

Stjórn HÍN árið 2012. Frá vinstri til hægri: Kristinn J. Albertsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Árni Hjartarson, Hilmar J. Malmquist, Esther Ruth Guðmundsdóttir, Jóhann Þórsson og Ester Ýr Jónsdóttir.

Kristinn J. Albertsson gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum félagsins á árinu 2011 og má kynna sér þá hér. Fjárhagsstaða félagsins er í járnum og má ekkert út af bregða. Sérstaka áhyggjur vekja skuldir félagsmanna en vangreidd árgjöld tveggja ára og eldri, þ.e. árgjöld fyrir árið 2010 og þaðan af eldri árgjöld, nema alls um 1,8 milljónir kr. Stjórn HÍN mun taka á þessu vandamáli á komandi kjörtímabili. Ein leiðin til að bregðast við bágri fjárhagsstöðu er að hækka félagsgjöld. Í því sambandi benti gjaldkerinn á að árgjöld hefðu dregist verulega aftur úr þróun neysluvísitölu. Sem dæmi má nefna að ef árgjald einstaklings fyrir árið 2011 hefði fylgt neysluvísitölu hefði það átt að vera um kr. 5.400 en það var 4.500 kr. Reikningar ársins 2011 voru samþykktir samhljóða með öllum 17 atkvæðum.

Tveir heiðursfélagar voru kjörnir á aðalfundinum, þær Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur og Margrét Guðnadóttir læknir og veirufræðingur, og er gerð grein fyrir þeirri athöfn í sérstakri frétt á heimasíðu félagsins.

Í stjórn félagsins voru endurkjörnir þrír stjórnarmenn sem voru að ljúka öðru starfsári fyrir félagið, en það voru formaðurinn Árni Hjartarson jarðfræðingur, Kristinn J. Albertsson jarðfræðingur og Jóhann Þórsson líffræðingur. Kjörtímabili Rannveigu Guicharnaud rann einnig út á aðalfundinum en hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Nýr stjórnarmaður var kjörin Hafdís Hanna Ægisdóttir líffræðingur. Hinir þrír stjórnarmennirnir sem skipa stjórn HÍN sitja áfram næsta kjörtímabil, en það eru Ester Ýr Jónsdóttir lífefnafræðingur, Esther Ruth Guðmundsdóttir jarðfræðingur og Hilmar J. Malmquist líffræðingur. Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar þann 5.3. 2012 var samþykkt að halda verkaskiptingu meðal stjórnarmanna óbreyttri frá síðasta kjörtímabili. Undir tenglinum Um félagið hér að ofan má finna upplýsingar um núverandi stjórn HÍN.

Fulltrúi HÍN í Dýraverndarráði, Margrét Björk Sigurðardóttir, afhenti stjórn félagsins ítarlega greinargerð um störf ráðsins á árinu 2011 sem lesa má hér.

Lagðar voru fram þrjár tillögur til lagabreytinga á aðalfundinum og voru þær samþykktar einróma með öllum 17 atkvæðum. Tillögurnar höfðu áður verið samþykktar af stjórn HÍN í desember 2011 og kynntar félagsmönnum í félagsbréfi með aðalfundarboði í 7. viku febrúar síðastliðinn. Lagabreytingarnar hafa þegar öðlist gildi þar eð þær voru samþykktar með minnst 2/3 hluta atkvæða eins og lög félagsins kveða á um. Undir tenglinum Um félagið er að finna núgildandi lög félagsins.

Á aðalfundinum var samþykkt ályktun um Náttúruminjasafn Íslands sem má lesa hér.

Fundargerð aðalfundar HÍN laugardaginn 25.2.2012 má kynna sér hér.