Samspil jarðskjálftavirkni og jökulhlaupa á Íslandi

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 24. september 2012 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Kristín S. Vogfjörð, jarðeðlisfræðingur sem flytur erindi sem hún nefnir Samspil jarðskjálftavirkni og jökulhlaupa á Íslandi.

Ágrip af erindi

„Jarðskjálftavirkni mælist í flestum virkum eldstöðvum á Íslandi. Sums staðar er hún á þó nokkru dýpi og tengist þá líklega kvikuhreyfingum í eldstöðinni. Háupplausnastaðsetningar slíkrar virkni í aðdraganda Eyjafjallajökulsgossins sýndu m.a. hvernig kvikan streymdi frá botni jarðskorpunnar, upp í gegnum eldstöðina , myndaði innskot í miðri skorpu og braust að lokum upp að yfirborði og olli eldgosi. Í öðrum eldfjöllum eins og Kötlu er virknin sem mælist almennt mun grynnri, og iðulega í og við jarðhitakatla í öskjunni. Þegar þessir katlar hlaupa verða jarðskjálftahrinur í þeim og þeim fylgir samfelldur jarðskjálftaórói . Þessi órói varir á meðan hlaupvatnið rennur undir jöklinum. Við eldgos mælist einnig samfelldur órói á jarðskjálftamælum og eru oft skiptar skoðanir á því hvort jökulhlaup úr eldstöð undir jökli er orsakað af eldgosi eða tæmingu jarðhitaketils. Tíðnigreining á þessum mismunandi atburðum sýnir ekki sama karakter, en þó geta þeir að einhverju leyti skarast. Seinustu 12 árin hafa safnast jarðskjálftagögn sem tengjast jarðhitakötlum í eldstöðvum, ásamt sjkálfta- og óróagögnum frá fjölda jökulhlaupa út Kötlu, Vatnajökli og Eyjafjallajökli, auk nokkurra eldgosa. Í nýja eldfjallarannsóknarverkefninu FUTUREVOLC, eru þessi gögn undirstaða skjálftarannsóknar á einkennum hinna mismunandi atburða, og samspili skjálftavirkni og jökulhlaupa frá eldstöðvum undir jökli

Í erindinu verður sýnd fylgni milli skjálftaþyrpinga og jarðhitakatla í Kötlu og Vatnajökli og tengsl þessarar skjálftavirkni og skjálftaóróa við jökulhlaup úr kötlunum skoðuð.“

Kristín S. Vogfjörð er fædd árið 1956. Hún lauk BS prófi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1982. Hún stundaði framhaldsnám í jarðeðlisfræði við Pennsylvania state University og lauk þaðan MS prófi árið 1986 og doktorsprófi árið 1991. Undanfarin tólf ár hefur Kristín unnið við jarðskjálftarannsóknir á Veðurstofu Íslands og seinustu fjögur einnig sem rannsóknarstjóri. Á Veðurstofunni hefur hún einkum fengist við kortlagningu virkra jarðskjálftasprungna með háupplausna skjálftastaðsetningum á brotabeltum Íslands og á jarðhitasvæðum. Hún hefur einnig rannsakað jarðskjálftaóróa og kortlagt skjálftavirkni í eldstöðvum, m.a. skoðað tengsl þeirra við jarðhitavirkni, kvikuhreyfingar, jökulhlaup og eldgos.