Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur ráðið Sighvat Blöndahl nýjan ritstjóra Náttúrufræðingsins. Félagið auglýsti starf ritstjóra laust til umsóknar í Fréttablaðinu fyrir um tveimur mánuðum síðan og bárust alls 20 umsóknir um starfið, vandaðar og áhugaverðar í hvívetna. Sex umsækjendur voru boðaðir í viðtal og einn hreppti hnossið, Sighvatur Blöndahl. Sighvatur mun hefja störf 1.desember næstkomandi. Gert er ráð fyrir að aðsetur ritstjórans verði áfram hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Stjórn HÍN óskar Sighvati velfarnaðar í starfinu og þakkar jafnframt fráfarandi ritstjóra til sex ára, Hrefnu B. Ingólfsdóttur, fyrir einkar ánægjulegt samstarf og farsælan ritstjóraferil. Fyrir tilstilli Hrefnu, þrautseigju hennar og elju, tókst m.a. að vinna inn þriggja ára útgáfuhala sem lék félagið grátt. Útgáfa Náttúrufræðingsins er nú á réttu róli. Von er á fyrstu tveimur tölublöðum í 83. árgangi tímaristins í byrjun næsta árs, á 83. útgáfuárinu.
Sighvatur Blöndahl er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og starfaði lengi við blaðamennsku, fjölmiðlastörf og stjórnunarstörf í atvinnulífinu, auk ritstarfa. Hann hefur undanfarin ár starfað sem grunn- og framhaldsskólakennari auk þess að stunda útivist og fjallamennsku og taka þátt í störfum innan björgunarsveita Slysavarnafálagsins Landsbjargar. Sighvatur er fjallaleiðsögumaður og einn af stofnendum íslenska Alpaklúbbsins og fyrsti formaður samtakanna. Sighvatur býr á Laugarvatni ásamt fjölskyldu sinni.