Mosar sem glóa – fjölbreytni og vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. nóvember 2012 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Ingibjörg Svala Jónsdóttir, plöntuvistfræðingur og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, sem flytur erindi sem hún nefnir Mosar sem glóa – fjölbreytni og vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga.20121121181606362621

Ágrip af erindi

„Mosar eru tegundaríkur hópur plantna (lágplantna) og telja þeir mun fleiri tegundir í flóru Íslands en æðplöntur (háplöntur). Þar að auki eru mosar ríkjandi í mörgum gróðurlendum á Íslandi og víðar á norðlægum slóðum, og oft á tíðum myndast þykk mosaþekja í gróðursverðinum. Þrátt fyrir það er almenn þekking á mosum hér á landi fremur takmörkuð. Rannsóknir sýna að mosar hafa mótandi áhrif á lífverusamfélög á landi og í ferskvatni, ekki aðeins plöntusamfélög heldur einnig smádýra- og örverusamfélög. Enn fremur sýna nýlegar rannsóknir að mosar gegna lykilhlutverki í margvíslegum ferlum vistkerfa. Það skýtur því nokkuð skökku við að fram til þessa hefur mosum verið heldur lítill gaumur gefinn í vistfræðirannsóknum og oft hefur verið litið á þá sem hlutlausan og einsleitan lífveruhóp. Á þessu er þó að verða mikil breyting. Vistfræðingar eru að gera sér æ betur grein fyrir mikilvægi mosa og að raunhæfar spár um afleiðingar loftslagsbreytinga og annarra umhverfisbreytinga fyrir landvistkefi norðurslóða verði að byggja á þekkingu á vistfræði mosa.“

Í erindinu mun Ingibjörg Svala gefa innsýn í fjölbreytileika mosa og þau margvíslegu hlutverk sem þeir gegna í vistkerfum lands. Í því sambandi mun hún taka dæmi úr rannsóknum sínum á mosum á Íslandi og annars staðar á norðurslóðum, meðal annars á áhrifum beitar og loftslagsbreytinga.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir fæddist árið 1955. Hún lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1980, fjórðaársritgerð frá sama skóla 1981 og doktorsprófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi 1989. Hún starfaði sem sérfræðingur við Vistfræðideildina í Lundi til 1993, sem háskólakennari (lektor-prófessor) við Grasafræðistofnun Gautarborgarháskóla til 1993-2000 og við Háskólasetrið á Svalbarða, UNIS, til 2006. Hún tók að sér verkefnastjórn við mótun Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna 2006-2009 og hefur starfað sem prófessor í vistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands frá 2009. Rannsóknir Ingibjargar Svölu hafa fjallað um margvíslegar hliðar samspils plantna og dýra og hafa á síðari árum beinst æ meir að áhrifum loftslagsbreytinga á landvistkerfi, einkum norðlægra slóða.