Forvitinn jeppi á Mars

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. janúar 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sem flytur erindi sem hann nefnir Forvitinn jeppi á Mars.

20130113201854785961

Ágrip af erindi

„Mars er fjórða reikistjarnan frá sólinni og sú reikistjarna sem líkist Jörðinni mest. Þótt yfirborðið sé skraufþurrt í dag ber það víða þess merki að vatn hafi flætt þar um í miklu magni, sem varpar upp þeirri spurningu hvort reikistjarnan hafi einhvern tímann verið lífvænleg. Til að leita svara við því var Curiosity jeppi NASA sendur til Mars. Curiosity er jarðfræðingur á hjólum, útbúinn fyrsta flokks vísindatækjum sem hann notar til að efnagreina jarðveg, berg og lofthjúp. Jeppinn lenti skammt frá lagskiptu fjalli sem talið er að hafi myndast í vatni en setlögin geyma upplýsingar um sögu svæðisins. Í erindinu verður fjallað um jeppann og þær rannsóknir sem hann á að gera á Mars. Fjallað verður um Mars almennt og jarðfræðilegar hliðstæður á Íslandi skoðaðar.“

20130113200748214992Sævar Helgi Bragason (f. 1984) hefur meistaranám í jarðfræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð haustið 2013 og hyggur á frekara nám í jarðfræði reikistjarnanna í framtíðinni. Hann er formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, gjaldkeri Stjarnvísindafélags Íslands og einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins. Sævar hefur kennt stjörnufræði og eðlisfræði í framhaldsskólum, verið sumarstarfsmaður á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og kennt börnum og unglingum í Háskóla unga fólksins og Háskólalestinni.