Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. mars 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Dr. Sigmundur Guðbjarnason, efnafræðingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, sem flytur erindi sem hann nefnir Heilsujurtir.
Ágrip af erindi
„Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og heilbrigðisstéttir almennt mæla með aukinni neyslu á grænmeti og ávöxtum til að styrkja forvarnir gegn ýmsum sjúkdómum svo sem krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum. Þessar ráðleggingar grundvallast á faraldsfræðilegum rannsóknum. Eðlilegt er að spurt sé: Hvers vegna er grænmeti hollt? Hvaða efni eru að verki og hvernig virka þau?
Rannsóknir víða um heim hafa sýnt að fjölmörg efni í grænmeti og ávöxtum hafa lífvirk efni sem hefta fjölgun á krabbameinsfrumum og hindra myndun á æxlum í tilrauna-dýrum. Hér eru dæmi um slík efni: sulforaphane í brokkolí, fúranókúmarín í sellerí, limonen í sítrusavöxtum, curcumin í karrý o.fl. Einnig hefur verið sýnt fram á fjölda lífvirkra efna í grænmeti sem hafa áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma: a) jurtir með efni sem virka gegn myndun blóðtappa (antiplatelet), b) jurtir með efni sem auka blóðstreymi og lækka blóðþrýsting, og c) jurtir með efni sem virka gegn truflunum á hjartslætti. Þá er hægt að benda á grænmeti og ávexti sem hafa efni sem geta dregið úr minnistapi og gleymsku. Þekktasta fæðubótarefnið hér á landi er lýsi sem hefur verið notað sem heilsubótarefni (A-vítamín, D-vítamín, omega-3 fitusýrur). Fleiri heilsubótarefni úr náttúrunni er unnt að vinna úr íslenskum lækningajurtum, úr þangi og þara, úr fiski, o.fl. Náttúran býður upp á mikla fjölbreytni lífvirkra efna þar sem samvirkni slíkra efna er mikilvæg en það táknar að meiri virkni fæst við minni styrk efnanna.“
Sigmundur Guðbjarnason stundaði nám í efnafræði við Tækniháskólann í Munchen 1952-1959. Hann var framleiðslustjóri Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi 1959-1960. Frá 1961-1970 var hann vísindamaður við læknaskóla Wayne State University í Detroit, Michigan og frá 1970-2001 var hann prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands. Sigmundur var rektor Háskóla Íslands frá 1985-1991 og árið 2000 frumkvöðull að stofnun SagaMedica – Heilsujurtir ehf.