Heilsujurtir

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. mars 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Sigmundur Guðbjarnason, efnafræðingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, sem flytur erindi sem hann nefnir Heilsujurtir.

20130317191130606228

Ágrip af erindi

„Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og heilbrigðisstéttir almennt mæla með aukinni neyslu á grænmeti og ávöxtum til að styrkja forvarnir gegn ýmsum sjúkdómum svo sem krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum. Þessar ráðleggingar grundvallast á faraldsfræðilegum rannsóknum. Eðlilegt er að spurt sé: Hvers vegna er grænmeti hollt? Hvaða efni eru að verki og hvernig virka þau?
Rannsóknir víða um heim hafa sýnt að fjölmörg efni í grænmeti og ávöxtum hafa lífvirk efni sem hefta fjölgun á krabbameinsfrumum og hindra myndun á æxlum í tilrauna-dýrum. Hér eru dæmi um slík efni: sulforaphane í brokkolí, fúranókúmarín í sellerí, limonen í sítrusavöxtum, curcumin í karrý o.fl. Einnig hefur verið sýnt fram á fjölda lífvirkra efna í grænmeti sem hafa áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma: a) jurtir með efni sem virka gegn myndun blóðtappa (antiplatelet), b) jurtir með efni sem auka blóðstreymi og lækka blóðþrýsting, og c) jurtir með efni sem virka gegn truflunum á hjartslætti. Þá er hægt að benda á grænmeti og ávexti sem hafa efni sem geta dregið úr minnistapi og gleymsku. Þekktasta fæðubótarefnið hér á landi er lýsi sem hefur verið notað sem heilsubótarefni (A-vítamín, D-vítamín, omega-3 fitusýrur). Fleiri heilsubótarefni úr náttúrunni er unnt að vinna úr íslenskum lækningajurtum, úr þangi og þara, úr fiski, o.fl. Náttúran býður upp á mikla fjölbreytni lífvirkra efna þar sem samvirkni slíkra efna er mikilvæg en það táknar að meiri virkni fæst við minni styrk efnanna.“

Sigmundur Guðbjarnason stundaði nám í efnafræði við Tækniháskólann í Munchen 1952-1959. Hann var framleiðslustjóri Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi 1959-1960. Frá 1961-1970 var hann vísindamaður við læknaskóla Wayne State University í Detroit, Michigan og frá 1970-2001 var hann prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands. Sigmundur var rektor Háskóla Íslands frá 1985-1991 og árið 2000 frumkvöðull að stofnun SagaMedica – Heilsujurtir ehf.