Leit að gulli á Íslandi

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 29. apríl 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Hjalti Franzson, jarðfræðingur, sem flytur erindi sem hann nefnir Leit að gulli á Íslandi.

Ágrip af erindi

„Leit að gulli og öðrum góðmálmum á sér nokkuð langa sögu hér á landi. Þekkingin berst líklegast fyrst til landsins í frá Íslendingum sem fluttust búferlum til nýja heimsins í kringum aldamótin 1900. Hér taka svo við eldhugar á borð við Einar Benediktsson og Björn Kristjánsson. Fundu þeir fjölda staða þar sem þeir töldu gullríkt og voru Þormóðsdalur og Mógilsá þeirra þekktastir. Þeirri leit lauk þó fremur dapurlega í Vatnsmýrinni sem alþjóð veit. Árið 1970 var gerð leit að hagnýtum jarðefnum, meðal annars málma, að undirlagi Rannsóknaráðs og UNTA, en leitinni stjórnaði Júgóslavinn Jankovic. Réð hann til sín nokkra íslenzka jarðfræðistúdenta sem enn minnast frægðarverka sinna á Suðausturlandi. Á síðari hluta níunda áratugar vaknaði áhuginn á ný þegar í ljós komu náin tengsl jarðhitavirkni og útfellingar gulls og annnarra málma. Styrkur fékkst frá Rannsóknaráði Íslands í þrjú ár og í framhaldi voru stofnuð fyrirtækin Málmís og Suðurvík. Frá þeim tíma hefur erlent fjármagn staðið straum af gullleit, einkum í gegnum fyrirtækið Melmi, og enn eru vísbendingar um að gullleit sé að hefjast. Þótt gull sé ekki ríkt í venjubundnu íslenzku basalti, er það laust bundið og auðleysanlegt í jarðhitavökva. Talið er að gull falli út úr jarðhitavökva við <300°C og finnist á 500-1500 m dýpi í háhitakerfum. Öflug suða er talin ein helzta orsök slíkra útfellinga. Leit fer fram á kerfisbundinn máta og svipar á margan hátt til jarðhitaleitar. Leitarsvæðin voru afmörkuð við háhitakerfi í útkulnuðum og djúpt rofnum megineldstöðvum. Sýnasöfnun er yfirleitt að tvennum toga, setsýni úr árfarvegum og bergsýni af ummynduðu bergi. Ef há gildi finnast er aftur farið á stúfana og viðkomandi svæði fínkembt. Þyki niðurstöður enn vænlegar getur það leitt til borana til að kanna frekar rúmmál þess bergs sem hefur ásættanlegt magn gulls. Langur vegur er því frá fyrstu rannsókn þar til ákvörðun um námurekstur er tekin. Rannsókn hefur aðeins á einu svæði náð svo langt að til borunar hefur komið og er það svæðið við Þormóðsdal enda er þar að finna sérlega gullríkt berg. Þar hefur fjöldi holna verið boraður og vísbendingar eru um að þar verði áfram haldið. Í fyrirlestrinum mun vera fjallað um gullleitina, og helztu niðurstöður raktar.“

Hjalti Franzson er fæddur 1947. Hann lauk stúdentsprófi 1968 og BSc Hon prófi í jarðfræði frá háskólanum í St. Andrews í Skotlandi 1972. Hann lauk doktorsprófi frá háskólanum í Edinborg 1979, og fjallaði verkefni hans um kortlagningu og jarðefnafræði megineldstöðvarinnar í Hafnarfjalli og Skarðsheiði. Hjalti réðst sem sérfræðingur til Orkustofnunar í jarðhitafræðum með sérstakri áherzlu á kortlagningu jarðhitakerfa á grundvelli yfirborðs og borholugagna. Áhugi á gulli á rætur sínar að rekja til bakgrunns hans í kortlagningu á jarðfræði og ummyndun jarðhitakerfa.