Um verndun jarðminja á Íslandi

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. september 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það eru jarðfræðingarnir Sigmundur Einarsson, Kristján Jónasson og Lovísa Ásbjörnsdóttir sem flytja erindi sem þau nefna Um verndun jarðminja á Íslandi.

Ágrip af erindi

„Í liðlega hálfrar aldar sögu náttúruverndar á Íslandi hefur aldrei verið hugað að heildarstefnu fyrir verndun jarðminja. Slíkt er reyndar á engan hátt sérstakt fyrir Ísland, en vegna mikillar sérstöðu landsins í jarðfræðilegu tilliti er þessi þáttur náttúruverndar mun þýðingarmeiri hér en víðast annars staðar. Jarðminjavernd nær til varðveislu náttúrulegs rófs og breytileika hins dauða hluta náttúrunnar, þ.e. berggrunns og jarðgrunns að meðtöldum landformum og jarðvegi.

Höfundar hafa á síðustu misserum kynnt tillögu að stefnu fyrir verndun jarðminja hér á landi. Þar er miðað við að verndunin endurspegli allan breytileika jarðminja í landinu og að varðveitt verði skipuleg heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefi samfellt yfirlit um jarðsögu landsins.

Allt frá landnámi norrænna manna á níundu öld hefur búseta í landinu valdið gríðarlegri hnignun jarðminja sem afar mikilvægt er að stöðva, sé þess nokkur kostur. Gildandi lög um náttúruvernd hafa reynst haldlítil í þessum efnum og sömu sögu er að segja af lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Við þetta bætist að þekkingarskortur hefur hrjáð málaflokkinn á öllum stigum íslenskrar stjórnsýslu.

Í erindinu verður gerð nánari grein fyrir hugmyndum um jarðminjavernd og farið yfir einstök dæmi um staði í landinu sem teljast hafa verndargildi á heimsmælikvarða.“

20140108142726072514Sigmundur Einarsson (f. 1950) lauk BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands 1974. Hann hefur m.a. starfað við almenna jarðfræðiráðgjöf, jarðhitarannsóknir, bókaútgáfu og stjórnsýslustörf. Sigmundur var ritstjóri Náttúrufræðingsins 1991–1997. Hann starfar nú hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

20140108142726173519Kristján Jónasson (f. 1964) lauk cand.scient.-prófi í jarðfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn árið 1990, með bergfræði sem sérgrein. Hann starfaði á norrænu eldfjallastöðinni 1991–1997 og var stundakennari við Háskóla Íslands 1990 og 1998–2007. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997 og sem fagsviðsstjóri jarðfræði frá 2007.

20140108142726582633Lovísa Ásbjörnsdóttir (f. 1960) lauk BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands 1984 og cand.scient.-prófi í steingervingafræði frá háskólanum í Árósum 1987. Hún starfar nú sem sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og sem sviðsstjóri landupplýsinga frá 2012.