Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. október 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Dr. Herdís Helga Schopka jarðfræðingur sem flytur erindi sem hún nefnir Grjót og loftslag og víxlverkun þeirra – efnaveðrun bergs á Filippseyjum, Hawaii og Íslandi.
Ágrip af erindi
„Magn kolefnis í andsrúmsloftinu gegnir lykilhlutverki í að stjórna loftslagi á jörðinni. Maðurinn hefur breytt náttúrulegri hringrás kolefnis en án þessarar íhlutunar, þ.e. yfir allan jarðsögulegan tíma fram að þessu, hafa önnur náttúruleg ferli stjórnað magni kolefnis í andrúmsloftinu. Kolefni kemst í andrúmsloftið þegar eldfjallagös sleppa úr iðrum jarðar, þegar kalksteinn í rótum fellingagjalla umbreytist og gefur frá sér kolefnisgas og einnig þegar lífverur deyja og rotna. Á móti kemur að kolefni hverfur úr andrúmsloftinu þegar lífverur fæðast og vaxa og þegar berg leysist upp í vatni (sk. efnaveðrun). Á milli allra þessara þátta er viðkvæmt jafnvægi sem kemur í veg fyrir að kerfið riðlist úr hófi fram.
Mikilvægt er að þekkja hraða þeirra ferla sem færa kolefni milli staða í jörðinni, einkum svo hægt sé að búa til raunsönn líkön af kolefnishringrásinni. Erfitt hefur reynst að meta hraða sumra ferlanna og hvaða þættir stjórni þeim. Enn deila fræðimenn t.d. um hvað stjórni hraða efnaveðrunar, þó vitað sé að helstu áhrifavaldar séu hitastig, tektóník (þ.e., efnis- og eðlisfræðilegir eiginleikar bergsins) og úrkoma – þar sem hátt hitastig, mikil úrkoma og basískt storkuberg fara saman má búast við hraðri efnaveðrun.
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hraða efnaveðrunar á tveimur mismunandi stöðum í hitabeltinu (Filippseyjum og Hawaii) og freista þess að fá frekari svör við því hvort og þá hvernig mismunandi tektóník hefur áhrif á efnaveðrun. Sýni voru tekin af ár-, grunn- og regnvatni á völdum svæðum á eyjunum og þau efnagreind. Niðurstöður staðfesta að efnaveðrun á eldvirkum svæðum Filippseyja er gríðarlega hröð. Hins vegar reyndist efnaveðrun á Hawaii vera tiltölulega hæg miðað við svipuð svæði á norðlægari breiddargráðum, t.d. Ísland.“
Herdís Helga Schopka er fædd árið 1974. Hún lauk B.S. prófi í jarðfræði frá HÍ árið 2000 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá Cornell University árið 2011. Herdís vann sem jarðfræðingur á Orkustofnun veturinn 2000-2001 og á Raunvísindastofnun Háskólans 2003 og var nýdoktor við Jarðfræðistofnun Þýskalands (GFZ) í Potsdam árin 2011-2013. Hún starfar nú sem sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.