Býflugur, erfðir og örlög

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. nóvember 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Ástríður Pálsdóttir ónæmisfræðingur/sameindaerfðafræðingur sem flytur erindi sem hún nefnir Býflugur, erfðir og örlög.

20131124214257961620

Ágrip af erindi

„Í nokkur ár hafa býflugur verið ræktaðar á Íslandi með góðum árangri eftir erfiða byrjun. Aðallega var erfitt að láta bú lifa af veturna. Eftirlit er með innflutningi og nýir býbændur verða að fara á námskeið enda krefst býflugnarækt natni. Félag býflugnaræktenda heldur uppi öflugri fræðslu og samhjálp. Býflugur eru fluttar inn árlega frá Álandseyjum en þar eru þær lausar við versta snýkjudýrið, varróa-maurinn, og eru sérlega geðprúðar að auki. Í fyrirlestrinum mun Ástríður Pálsdóttir fara yfir helstu atriði í líffræði býflugna, uppbygingu búa og segja frá eigin reynslu og einnig fjalla um drottingarhunang (royal jelly) og hvernig það breytir lirfu í drottningu með stjórn á genastarfsemi.“

Ástríður Pálsdóttir, f. 1948 útskrifaðist með BS-próf í líffræði árið 1973 frá Hákóla Íslands og lauk DPhil gráðu frá Oxford háskóla árið 1986 á sviði ónæmisfræði/sameindaerfðafræði. Hún vinnur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Hennar aðaláhugamál er að rannsaka alíslenskan sjúkdóm, arfgenga heilablæðingu og einnig hlutverk umhverfisins á sjúkdómsmyndina. Nýtt svið innan erfðafræðinnar fjallar um utangenaerfðir þar sem m.a. fæða hefur áhrif á genavirkni. Hjá býflugum er einmitt besta dæmið um utangenaerfðir þegar royal jelly, eða drottingarhunang, breytir lirfu í drottningu, lirfu sem annnars hefði þroskast í vinnubý.