Plöntuerfðatæknin og vöruþróun

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 24. febrúar 2014 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það er Dr. Björn Lárus Örvar plöntuerfðafræðingur sem flytur erindi sem hann nefnir Plöntuerfðatæknin og vöruþróun.

20140219091203628750

Ágrip af erindi

„Miklar framfarir hafa orðið í erfðatækni á síðustu áratugum sem m.a. hefur leitt til byltingar í læknisfræðirannsóknum og lyfjaþróun. Mörg ný lyf, t.d. gegn krabbameini og gigt, eru nú framleidd með erfðatækni í erfðabreyttum bakteríum eða í spendýrafrumum. Plöntuerfðatæknin hefur hægt og rólega verið að ryðja sér til rúms í nútíma landbúnaði, en tæknin hefur m.a. verið notuð til að auka varnir gegn skordýrum og veirusjúkdómum, bæta næringarinnihald plantna eða gera þær þolnari gagnvart erfiðum umhverfisskilyrðum. Þá hefur komið í ljós að plöntur henta mjög vel fyrir framleiðlsu á ýmsum, sérhæfðum próteinum fyrir rannsóknir og lyfjaþróun. ORF Líftækni hefur m.a. sýnt fram á að með erfðatækni er hægt að framleiða í byggfræjum ýmis erfið prótein, einsog vaxtarþætti úr manninum, fyrir læknisrannsóknir og stofnfrumuræktanir. Þessi framleiðsla er á margan hátt hagkvæmari og öruggari en hefðbundin framleiðsla í bakteríum og spendýrafrumum, og er afrakstur öflugs vísinda- og þróunarstarfs hjá fyrir­tækinu undanfarin ár. Þá hefur fyrirtækið þróað húðvörur sem byggja á notkun þessara vaxtarþátta, en þessar vörur hafa náð góðum árangri á erlendum mörkuðum. ORF Líftækni hlaut Evrópsku líftækniverðlaunin árið 2012 fyrir vörur sínar, en fyrirtækið hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði í heiminum. Fjallað verður m.a. um framleiðslukerfi fyrirtækisins og markaðssetningu á neytendavörum þess.“

Björn Lárus Örvar lauk Ph.D. námi í plöntuerfðatækni við háskólann í Bresku Kólombíu 1997. Að því námi loknu starfaði hann í 3 ár við McGill háskólann í Montreal. Björn er einn af stofnendum ORF LÍftækni hf og var framkvæmdastjóri þess frá 2006 – 2013. Frá 2013 hefur hann verið framkvæmdastjóri vísinda- og vöruþróunarsviðs fyrirtækisins, en jafnframt því starfi hefur hann tekið mikinn þátt í markaðssetningu á vörum félagsins erlendis.