Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 31. mars 2014 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Dr. Skúli Skúlason dýrafræðingur sem flytur erindi sem hann nefnir Um nýja strauma og stefnur innan þróunarfræðilegrar vistfræði.
Ágrip af erindi
„Þróunarfræðin leiðir saman margar greinar líffræðinnar. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikilvæg tenging milli rannsókna í vistfræði, þróunarfræði og þroskunarfræði. Þetta felur í sér nýstárlega nágun á hvernig vistfræðilegar aðstæður geta stuðlað að náttúrulegu vali en jafnframt mótað þroskun svipgerða, samhliða því að svipgerðir geta haft áhrif á vistfræðilegar aðstæður. Samverkun þessara ferla getur skýrt hvers vegna þróun líffræðilegrar fjölbreytni getur verið bæði hröð og breytileg og hvernig samspil vistfræði og þroskunar lífvera er lykilatriði í þróun breytileika og myndun tegunda. Margar tegundir norðlægra ferkvatnsfiska mynda afbrigði sem nýta sér ólíkar fæðuauðlindir og búsvæði og í sumum tilfellum hafa nýjar tegundir myndast. Rannsóknir sýna að aðskilnaður samsvæða afbrigiða orsakast af rjúfandi náttúrulegu vali og að svipgerðirnar mótast í mismiklum mæli af erfða-, umhverfis-, og móðuráhrifum. Norðlægir ferskvatnsfiskar eru því afar hentugir til rannsókna á samspili vistfræði, þróunar og þroskunar lífvera. Í fyrirlestrinum verður þetta útskýrt nánar með fræðilegum skýringum og dæmum.“
Skúli Skúlason lauk Ph.D. námi í dýrafræði við háskólann Guelph í Kanada 1990. Að loknu doktorsnámi starfaði hann í 1 ár sem nýdoktor við Berkeley háskólann í Kaliforníu. Árið 1990 hóf hann störf við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Hólaskóla, síðar Háskólans á Hólum. Hann gegndi starfi skólameistara/rektors við sama skóla á árunum 1999-2012 og hefur gegnt þar prófessorstöðu frá 2007.