Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. apríl 2014 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það eru Anna Sigríður Valdimarsdóttir náttúru- og umhverfisfræðingur og Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur sem flytja erindi sem þau nefna Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir.

20140427171912523571

Ágrip af erindi

„Viðey í Þjórsá er stök ey suðaustan við bæinn Minna­Núp í Gnúpverjahreppi. Áin er þar djúp og straumþung og hefur eyin því notið nokkurrar verndar fyrir ágangi manna og búfjár. Í Viðey er gróskulegur birkiskógur sem ekki er að finna á bökkum árinnar. Lítið var vitað um annan gróður í eynni. Áform eru um að stífla Þjórsá ofan Viðeyjar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Rennsli Þjórsár meðfram Viðey myndi minnka mjög mikið við virkjun og jafnframt sú vernd sem áin veitir eynni. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna gróður í Viðey í Þjórsá og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða gerðir gróðurs er að finna í eynni? Hver er þekja og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður­ og landgerðum í eynni og á svipuðu landi beggja vegna árinnar? Finnast í eynni sjaldgæfar plöntutegundir? Í rannsókninni voru lagðir út 13 reitir sumarið 2009; fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Í Viðey finnast fjórar megingerðir gróðurs; birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. Í eynni fundust 74 tegundir háplantna, þ.á.m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti. Þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri á bökkum árinnar en í samræmi við það sem komið hefur fram í öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum. Viðey var friðlýst árið 2011 til verndunar lítt snortins og gróskumikils birkiskógar og því lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs, þá er sérstaklega treyst vísinda­ og fræðslugildi eyjarinnar.“

Anna Sigríður Valdimarsdóttir lauk B.S.-prófi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010 og hóf M.S-nám haustið 2011 við sama skóla. Sigurður H. Magnússon lauk B.S.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D.-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997.