Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 24. nóvember 2014 í sal 101 í Lögbergi, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15. Athugið nýja staðsetningu!
Það er jarðeðlisfræðingurinn Guðni Axelsson sem flytur erindi sem hann nefnir Eðli jarðhitans og sjálfbær nýting hans.
Ágrip af erindi
„Jarðhitinn er almennt flokkaður sem endurnýjanleg auðlind vegna þess að honum er viðhaldið af stöðugum, náttúrlegum varmastraumi og vegna þess hve gríðarmikill varmaforði jarðskorpunnar er, samanborðið við orkunotkun mannkyns. Auk þess á hann illa heima í flokki endanlegu orkulindanna. Skiptar skoðanir hafa verið um þessa flokkun en ástæða þess er fyrst og fremst þörfin fyrir að fella flókna náttúruauðlind að ófullkomnu flokkunarkerfi. Nýtingarstefna ætti fyrst og fremst að ráðast af eðli auðlindar, ekki af slíkri flokkun. Jarðhitaauðlindin, sem er gríðarstór, getur lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar orkunotkunar um allan heim, auk þess að geta hjálpað við að draga úr loftslagsbreytingum. Áratugalöng reynsla af nýtingu jarðhitakerfa, jafnt á Íslandi sem erlendis, sýnir að með því að viðhalda orkuvinnslu undir ákveðnum mörkum ná kerfin nokkurn veginn jafnvægi milli orkuvinnslu og innstreymis, sem halda má í langan tíma. Því hefur verið lagt til að tímakvarði uppá 100 til 300 ár sé raunhæfur þegar sjálfbær jarðhitanýting er skoðuð. Langar vinnslusögur jarðhitakerfa um allan heim fela í sér mikilvægustu gögnin til að meta hve mikil jarðhitavinnsla getur verið til að teljast sjálfbær og jafnframt er forðafræðilíkanagerð af ýmsu tagi öflugasta verkfærið tiltækt til þess. En sjálfbær nýting jarðhitans felst ekki bara í því að viðhalda vinnslu úr ákveðnu jarðhitakerfi, heldur þarf líka að taka tillit til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Til að stefna að sjálfbærri jarðhitanýtingu þarf að setja almenn sjálfbærnimarkmið og þróa svo sjálfbærnivísa (indicators) til að meta hversu nálægt því að vera sjálfbær nýting mismunandi jarðhitakerfa er.“
Guðni Axelsson er jarðeðlisfræðingur sem hefur starfað sem sérfræðingur í forðafræði jarðhita í 30 ár. Hann hefur sérhæft sig í mati á afkastagetu jarðhitakerfa og notkun forðafræði við vinnslustýringu þeirra, auk niðurdælingarrannsókna og rannsókna á sjálfbærri nýtingu jarðhitans. Í dag er hann sviðsstjóri kennslu og þróunar á Íslenskum orkurannsóknum, auk þess að vera gestaprófessor við Háskóla Íslands.