Fyrir nokkrum missirum ákvað stjórn HÍN að gefa út sérstakt þemahefti Náttúrufræðingsins undir nafninu “Náttúra Þingvallavatns og Mývatns – Einstök vistkerfi undir álagi”. Markmið með verkefninu er að koma á framfæri nýjum rannsóknum á náttúru Mývatns‒Laxár og Þingvallavatns. Einnig verður fjallað um verndarstöðu vatnasviðanna og þær ógnir sem kunna að steðja að hinum sérstæðu vistkerfum vatnanna. Í þessu skyni hefur verið leitað eftir styrkjum til að fjármagna útgáfuna. Jákvæðar undirtektir hafa nú þegar fengist á tveimur stöðum. Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar veitti styrk upp á 700.000 kr. og Samfélagssjóður Landsbankans styrkir verkefnið með 250.000 kr.
HÍN þakkar kærlega fyrir sig og gleðst yfir þeim skilningi sem þessir sjóðir sýna útgáfuhugmyndum félagsins.
Þingvallavatn og Mývatn‒Laxá ásamt vatnasviðum hafa mjög hátt verndargildi í vísinda- og samfélagslegu tilliti jafnt á lands- sem heimsvísu. Bæði vötnin eru af gerð lindarvatnskerfa á ungum hraunmyndunum en slík vatnavistkerfi eru mjög fágæt á Jörðinni. Þá státa vötnin af óvenjumikilli grósku og líffræðilegum fjölbreytileika, þar á meðal eru lífverur sem vart eða ekki er að finna annars staðar í veröldinni ‒ s.s. kúluskítur í Mývatni, einlendar hellamarflær í Þingvallavatni og 2‒4 afar ólík afbrigði bleikju sem einstök mega kallast.
Vötnin og vatnasvið þeirra njóta verndar skv. alþjóðasamningum. Þau eru vöktuð og fylgst er með breytingum á lífríki og eðlis- og efnaþáttum. Á undanförnum árum hafa komið fram vísbendingar um að lífríki þeirra sé stefnt í hættu; kúluskíturinn er á hverfanda hveli, fiskþurrð er í Mývatni og blámi og tærleiki Þingvallavatns er á undanhaldi. Skýringanna virðist mega leita til mannlegra umsvifa, a.m.k. að hluta til. Því er ærin ástæða til að upplýsa þjóðina með greinarskrifum færustu vísindamanna landsins og spyrja hvert stefnir með þessar perlur í náttúru Íslands.
Þemaheftið verður tileinkað próf. Pétri M. Jónassyni, vatnalíffræðingi, sem hafði forystu fyrir viðamiklum rannsóknum sem stundaðar voru á vistfræði vatnanna á árunum 1968‒1990. Rannsóknirnar leiddu m.a. til friðunar Mývatns‒Laxár 1974 og verndunar vatnasviðs Þingvallavatns 2004.

Frá afhendingu Samfélagsstyrks Landsbankans þann 5. desember 2014.