Áhrif Heklugosa á býli í landi Kots á Rangárvöllum

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. janúar 2015 stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er fornleifafræðingurinn Margrét Hrönn Hallmundsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Áhrif Heklugosa á býli í landi Kots á Rangárvöllum.

20150122104618322399

Ágrip af erindi

„Fyrirlesturinn er tvískiptur: fjallað verður stuttlega um störf fornleifadeildar innan Náttúrastofu Vestfjarða en stofan er sú eina á landinu sem rekur fornleifadeild. Fjallað verður um þau verkefni sem Náttúrustofan vinnur að og síðar um eina af rannsóknum fornleifadeildar Náttúrustofu Vestfjarða í Koti á Rangárvöllum

20150122104624839118

Árið 2005 hóf Náttúrustofa Vestfjarða rannsókn á rúst sem fannst í landi Kots á Rangárvöllum. Húsið hefur verið byggt rétt eftir landnám en fallið árið 1341. Margar athyglisverðar spurningar vöknuðu við rannsóknina.
Gjóskulög skipa stóran sess í rannsókninni því margar af helstu niðurstöðum rannsóknarinnar eru byggðar á gjóskulögum og það voru einmitt þau sem stuðluðu að því að rústin varðveittist eins vel og raun ber vitni. Gólflög og eldstæði benda til þess að húsið hafi verið bústaður manna en aðeins einn járnnagli hefur fundist við rannsóknina sem er mjög óvanalegt. Hugsanlega hefur húsið verið sel, sem vekur upp spurningar um þróun byggðar á landnámsöld en Kot er langt inn í landi og í töluverðri hæð yfir sjávarmáli.
Rannsóknir leiddu jafnframt í ljós að lækur þar nærri er þornaður upp löngu fyrir gosin í Kötlu 1500 og Heklu 1510. Líklega hafa gos í Heklu frá landnámi leitt til þess að lækurinn hafi smá saman þornað upp. Í farveginum hafa verið grafnir fimm stórir brunnar til að ná í það litla vatn sem var þar fyrir og til að halda áfram baráttunni fyrir byggð í Koti.“

20150122104624193684Margrét Hrönn Hallmundsdóttir (1973) er með BA próf í fornleifafræði frá Háskóla Íslands og á ólokið ritgerð til MA prófs í fornleifafræði um rannsóknina í Koti á Rangárvöllum. Margrét var aðstoðarmaður safnstjóra á Byggðasafni Árnesinga frá 2000-2004 og verkefnastjóri fornleifaskráningar hjá sömu stofnun frá 2004-2010.
Árið 2010 hóf Margrét störf sem deildarstjóri fornleifadeildar á Náttúrustofu Vestfjarða og hefur starfað að rannsóknum í fornleifafræði við stofnunina síðan.