Aðalfundur HÍN 2015!

Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags verður haldinn í þjóðminjasafninu laugardaginn 21. febrúar n.k. og hefst fundurinn kl. 14.00. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf eins og lýst er í lögum félagsins: 1. Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári; 2. Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar; 3. Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga, og 4. Önnur mál.

Áður en aðalfundarstörf hefjast mun Ólafur Arnalds, prófessors í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytja erindi sem hann nefnir „Því af mold ert þú …“ Erindi Ólafs tengist Alþjóðlegu ári jarðvegs á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ráðgert er að erindi Ólafs verði 30 mín. langt. Aðalfundarstörf hefjast kl. 14.45. Gert er ráð fyrir að fundi ljúki upp úr kl. 16.

Útdráttur erindis Ólafs Arnalds “Því af mold ert þú …..”

“Jarðvegur” er einkennilegt hugtak – hvað “vegur” er þetta? “Vegur lífsins” væri rökrétt ályktun, en líklega á þessi vegur fremur rætur í plógfarinu og víst er að jarðvegsfræði óx upp úr akuryrkjunni. Afar mikilvægt er að festast ekki í því farinu, að skilja ekki moldina frá öðrum hlutum vistkerfa. Moldin er einn hlekkur af mörgum í hringrásum orku, vatns, lífs og næringar. Jarðvegsfræðin eru í æ ríkari mæli hluti af náttúruvísindum almennt og umhverfisvernd, enda hefur gengið hratt á jarðvegsauðlindina vegna skefjalausrar ofnýtingar sem fylgir fjölgun mannkyns og ört vaxandi þörf á fæðu. En án moldar skortir fæðu og klæði og því er árið 2015 helgað moldinni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Íslensk mold er um margt einstök á heimsvísu. “Sköpunin” sem leggur til efniviðinn á sér rætur í eldvirkni og áfoki. Þróunin er mörkuð af meira óðagoti efnaferla en þekkist í öðrum jarðvegi og úr verður æði sérstæð jarðvegsauðlind. Á Íslandi eru áhrif frost meiri en víðast annars staðar og yfirborðsferli virkari en gengur og gerist. Landið er í raun stórkostlegur vettvangur landmótunar sem á sér vart hliðstæðu. Þar sem moldin þróaðist í nábýli við eldfjöll og öskufall varð hún grófgerð og viðkvæm. Og síðan kom maðurinn til sögunnar og reyndi á þolrifin, með hrikalegum afleiðingum. Allt umhverfi landsins er markað hnignun vistkerfa. En við erum heppin; aðstæður til vistheimtar eru óvíða betri. Jarðvegsfræði fjallar öðrum þræði um þanþol og ástand vistkerfa – og vistheimt. Í fyrirlestrinum verður fjallað almennt um þessa þætti – og kynnt ný bók um jarðveg landsins.