Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) haldinn 21. febrúar 2015 harmar mjög þá stöðu sem Náttúruminjasafn Íslands býr við, rúmum 125 árum eftir að náttúrufræðisafn fyrir landsmenn var sett á oddinn með stofnun HÍN árið 1889. Algjör óvissa hefur ríkt um aðstöðu safnsins til sýningahalds í árafjöld og nýlega var skrifstofuaðstöðu safnsins sagt upp af hálfu hins opinbera án samráðs. Fjárframlög ríkisins til Náttúruminjasafnsins eru fyrir neðan allar hellur sem gerir safninu nær ókleift að sinna með sóma lögbundnum hlutverkum á sviði rannsókna, sýninga, fræðslu og upplýsingamiðlunar.
Gullin tækifæri til úrbóta eru þó til staðar og hafa verið fyrir hendi um nokkra hríð. Hugmyndir eru uppi um sjálfstæða grunnsýningu um náttúru Íslands í Perlunni. Borgaryfirvöld sýna safni á þessum stað áhuga og fjárfestar eru reiðubúnir til þátttöku í uppbyggingunni. Til ríkisins er einungis gerð sú krafa að það axli þá ábyrgð sem því ber lögum samkvæmt og sýni vilja til samstarfs. Þar fara saman hagsmunir ríkis og borgar, lands og þjóðar. Það er vandséð að hagkvæmari kostur finnist og ákjósanlegri staður er varla til – Perlan í Öskjuhlíð er miðlægt í höfuðborginni, í námunda við önnur höfuðsöfn þjóðarinnar og háskólaumhverfið, á besta stað fyrir ferðaþjónustu og í órofa tengslum við íslenska náttúru með höfuðborgarsvæðið og fjallahring þess allt um kring og jarðhitann og nýtingu hans hið næsta sér.
Aðalfundur HÍN átelur stjórnvöld harðlega fyrir þá óviðunandi aðstöðu sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum, er búin – húsnæðislaust og fjársvelt. Fundurinn hvetur mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til að taka af skarið strax og styðja við starfsemi þessarar menningarstofnunar sem hann fer með yfirstjórn á, þannig að sómi og reisn sé af. Fundurinn beinir þeirri áskorun til allra, sem bera hag íslenskrar náttúru, náttúrufræða, náttúrurannsókna og þekkingar fyrir brjósti, að taka saman höndum og styðja við bakið á starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Það er hneisa og þjóðarskömm að höfuðsafn landsins í náttúrufræðum skuli standa uppi húsnæðislaust, fjársvelt og vanbúið nær öllu því sem það þarf til að sinna lögbundnu hlutverki sínu með sóma.