Vaxandi ferðamennska: Er gjaldtaka að náttúrunni lausnin?

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. mars 2015 stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:30.
Það er landfræðingurinn Anna Dóra Sæþórsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Vaxandi ferðamennska: Er gjaldtaka að náttúrunni lausnin?.

Ágrip af erindi

„Ísland er orðinn vinsæll áfangastaður og hefur fjöldi erlendra ferðamanna sem kemur til landsins aukist hratt. Sérstæð og fjölbreytileg náttúra er aðal aðdráttarafl landsins en hún er jafnframt viðkvæm og hefur smám saman verið að láta á sjá vegna vaxandi álags. Þrátt fyrir það hefur takmörkuðu fé verið varið til verndunar náttúruskoðunarstaða landsins. Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp um náttúrupassa og er það til komið til að afla fé til slíkra verka. Í erindinu verður fjallað um vöxt ferðaþjónustunnar og helstu afleiðingar. Rætt verður um annmarka frumvarpsins um náttúrupassa og hvernig það getur snúast upp í andhverfu sína með því að ganga frekar á náttúruna í stað þess að vernda hana.“

Anna Dóra Sæþórsdóttir er landfræðingur og dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Hún er varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar háskólans og formaður faghóps II í 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu. Hún hefur unnið að ýmsum rannsóknum á sviði ferðamála eins og t.d. á þolmörkum ferðamennsku, náttúruferðamennsku, ferðamennsku á hálendinu og víðernum og áhrifum virkjana á ferðamennsku.