Rannsóknir á stofnvistfræði refa á Íslandi

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. apríl 2015 stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er spendýravistfræðingurinn Ester Rut Unnsteinsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Rannsóknir á stofnvistfræði refa á Íslandi.

20150416094146670635

Ágrip af erindi

„Í erindinu verður sagt frá rannsóknum á íslenska refastofninum og nokkrum helstu niðurstöðum þeirra. Byggt er að mestu á gögnum sem Páll heitinn Hersteinsson aflaði á rúmlega 30 ára tímabili en hann nýtti einnig veiðigögn frá því þau voru skráð formlega árið 1958. Því eru til samfelld gögn úr mælingum og veiðitölur fyrir ríflega 50 ára tímabil. Samkvæmt veiðitölum fækkaði refum á landinu umtalsvert á árunum 1958 – 1979 og var stofninn orðinn ansi fáliðaður þegar Páll hóf stofnmat sitt árið 1979, líklega undir 1000 dýr. Upp frá því hóf stofninn að vaxa og árið 2008 hafði fjölgað nær tífalt í hauststofni refa á landsvísu. Ýmislegt hefur verið skoðað til að skýra stofnbreytingarnar en lykilatriði snúa annars vegar að tímgunargetu, hversu mörg kynþroska kvendýr taka þátt í tímgun ár hvert (geldtíðni) og hversu mörg afkvæmi þær eiga í hverju goti (frjósemi). Hins vegar er það dánartíðnin og hversu margir yrðlingar ná að lifa nógu lengi til að verða kynþroska. Þessir þættir eru tengdir innbyrðis og háðir öðrum breytum s.s. framboði óðala, fæðu og fleira. Þéttleiki, þ.e. fjöldi óðala á flatarmálseiningu, ræðst af fæðuframboði en fæða að vetrarlagi hefur áhrif á líkamsástand sem ræður lifun og tímgunarþátttöku. Veðurfar hefur áhrif á fæðuframboðið með beinum og óbeinum hætti. Loftslagsbreytingar hafa náð auknum hraða með tilheyrandi áhrifum á lífríkið og mengun sem dagar uppi á norðurslóðum. Tófan er eitt af flaggskipum rannsókna í þessum málaflokki og landfræðileg einangrun gerir Ísland mikilvægt sem samanburðarsvæði“

Ester Rut Unnsteinsdóttir (1968) lauk BS-próf í líffræði frá Háskóla Íslands vorið 1999 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Ester hefur sinnt rannsóknum á refum á Hornströndum í samstarfi við Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða frá árinu 1998. Haustið 2007 stofnaði hún, ásamt samstarfsaðilum, Melrakkasetur Íslands ehf. og starfaði þar sem forstöðumaður þar til ársins 2013. Hún tók við rannsóknum á íslenska refastofninum eftir andlát Páls Hersteinssonar og gegnir nú starfi spendýravistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.